Fjórða banaslysið á síðustu 16 árum

Sundhöll Selfoss þar sem slysið varð.
Sundhöll Selfoss þar sem slysið varð. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

„Auðvitað reikar hugurinn alltaf þangað og það kemur inn í umræðuna þegar leitað er skýringa á orsök slyssins,“ segir Bragi Bjarnason, deildarstjóri frístunda- og menningardeildar Árborgar. Vísar hann í máli sínu til slysa sem orðið hafa í Sund­höll­inni á Sel­fossi síðustu ár, en eins og áður hefur komið fram lést eldri karlmaður í lauginni á mánudag. 

Á síðustu 16 árum hafa fjögur banaslys orðið í umræddri laug. Fyrst árið 2006 og nú síðast á mánudag. Þá urðu tvö banaslys í millitíðinni, árið 2011 þegar ungur drengur drukknaði og árið 2019 þegar karlmaður lést eftir að hafa fengið hjartaáfall í gufubaði laugarinnar. Að sögn Braga er nú unnið að því að skoða alla vinnuferla starfsmanna sundlaugarinnar. 

„Við erum að skoða alla þætti og höfum verið að vinna að því með aðilum innanhúss frá því að þetta kom upp. Við erum að skoða sérstaklega af hverju það liðu sjö mínútur þar til hann fannst í lauginni og hvort vaktaskipti hafi haft áhrif. Það er einn af mörgum þáttum sem verið er að skoða,“ segir Bragi.

Ákveðið ferli fer af stað

Spurður hvort framangreind slys bendi til þess að sundlaugin á Selfossi sé slysagildra kveður Bragi nei við. „Maður vill aldrei sjá svona hörmuleg slys á neinum stað, hvort sem það er í sundlaug eða annars staðar. Þegar einstaklingar finnast þá fara ákveðnir ferlar í gang. Lögreglan vinnur nú að rannsókn málsins og við erum í góðu samstarfi við þá,“ segir Bragi og bætir við að hugur hans sé fyrst og fremst hjá aðstandendum hins látna. 

„Þetta er auðvitað bara hörmulegt slys og maður vill gera allt til að koma í veg fyrir að svona gerist aftur. Ég vil bara skila dýpstu samúðarkveðjum til fjölskyldu hins látna. Okkar hugur er þar,“ segir Bragi. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert