Fjórir nýir höfundar fá styrk

Miðstöð íslenskra bókmennta úthlutaði í dag fjórum nýjum höfundum Nýræktarstyrki fyrir verk þeirra, en hver styrkur nemur hálfri milljón króna. Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, afhenti styrkina við athöfn í Gunnarshúsi, húsi Rithöfundasambandsins.

Nýræktarstyrkir eru veittir árlega fyrir skáldverk höfunda sem eru að stíga sín fyrstu skref á ritvellinum, óháð aldri, og til að hvetja þá til frekari dáða á þeirri braut. Átt er við skáldverk í víðri merkingu; sögur, ljóð, leikrit og fleira. Verkin sem hljóta viðurkenninguna í ár eru ljóðabækur, furðusaga og smásögur.

Eftirtalin verk og höfundar hljóta Nýræktarstyrki 2020:

500 dagar af regni eru smásögur eftir Aðalstein Emil Aðalsteinsson (f. 1994). Hann ólst upp í Kópavogi og er búsettur þar. Á undanförnum misserum hafa birst eftir hann smásögur í ýmsum tímaritum, þ.á.m. TMM og Stínu, en einnig hefur hann, ásamt öðrum, ritstýrt menningartímaritinu Skandala um hríð. Aðalsteinn hefur skrifað greinar um bókmenntir og listir og komið fram í menningartengdum hlaðvarps- og útvarpsþáttum.

Umsögn bókmenntaráðgjafa um verkið: 500 dagar af regni er safn níu smásagna úr íslenskum samtíma þar sem dregin eru fram lykilaugnablik í lífi venjulegs fólks. Höfundur hefur gott vald á smásagnaforminu sem hann notar til að bregða ljósi á hinar myrku hliðar mannsins. Næmt auga fyrir smáatriðum magnar upp ískyggilegt andrúmsloft þar sem örlögin vega salt innan ramma hversdagsins.

Taugaboð á háspennulínu er ljóðabók eftir Arndísi Lóu Magnúsdóttur (f. 1995). Hún er með BA próf í frönsku, með bókmenntafræði sem aukagrein, og stundar meistaranám í þýðingafræði við Háskóla Íslands. Hún hefur alltaf haft mikinn áhuga á tjáningu og tungumálum og fengist við þýðingar úr ýmsum málum meðfram náminu, þó aðallega bókmenntatexta úr frönsku. Arndís Lóa hefur skrifað sögur fyrir börn og svo ljóð og smásögur í seinni tíð, enn óbirt.

Umsögn bókmenntaráðgjafa um verkið: Taugaboð á háspennulínu er tvískipt ljóðabók sem fjallar um tjáningu, einangrun og einmanaleika. Ljóðin eru ort af öryggi og hugvitssemi, meðal annars frá sjónarhóli ómálga barns og eldri manneskju sem er að tapa málinu. Höfundur dregur upp ljóslifandi myndir sem koma oft á óvart og býr til heildstæðan og marglaga heim þar sem hið kunnuglega verður framandi.

Skuggabrúin er furðusaga eftir Guðmund Ing Markússon (f. 1969). Hann er með meistaragráðu í trúarbragðafræðum frá Árósaháskóla með táknfræði sem aukafag og stundaði framhaldsnám í mannfræði við Queen‘s háskólann í Belfast. Hann hefur stýrt verkefnum sem lúta að Evrópusamstarfi í menntun og menningu, sinnt fræðimennsku auk þess að fást við skáldskap. Áhugasvið Guðmundar liggja helst á sviði furðusagna og vísindaskáldskapar, en einnig goðsagna og barna- og ungmennabókmennta.

Umsögn bókmenntaráðgjafa um verkið: Skuggabrúin er furðusaga sem er jafnt skrifuð fyrir fullorðna sem ungmenni. Margvísleg átök milli ljóss og skugga, sýndar og reyndar, berast víða um ísilagt norðurhvelið en eiga sér líka stað í huga persónanna. Í þéttofnum texta er dregin upp margbrotin og vandlega útfærð heimsmynd þar sem afar blæbrigðaríkur stíll gerir umhverfið og náttúruöflin áþreifanleg.

Þagnarbindindi er ljóðsaga eftir Höllu Þórlaugu Óskarsdóttur (f. 1988). Hún hefur unnið sem dagskrárgerðarmaður á Rás 1, stýrt menningarþáttunum Víðsjá, Tengivagninum og Bók vikunnar, auk þess að sinna umfjöllun um barna- og unglingabækur í þættinum Orð um bækur. Hún útskrifaðist með BA gráðu í myndlist og úr ritlist við Háskóla Íslands árið 2014. Halla Þórlaug hefur skrifað leikrit, einstaka ljóð og smásögu sem sum hafa birst í TMM eða í safnritum ritlistarnema.

Umsögn bókmenntaráðgjafa um verkið: Ljóðsagan Þagnarbindindi miðlar hugarheimi konu sem reynir að ná tökum á minningum um missi og ótta, um samskipti við konurnar sem hafa verið henni nánastar og henda reiður á svo mörgu sem hún hefur aldrei sagt. Á yfirborðinu hafa ljóðin lágstemmt yfirbragð hversdagsraunsæis en markvisst myndmál og athuganir undirstrika sársaukann í þögninni og tilfinningalega dýpt undir kyrrlátu yfirborðinu.

Þetta er í þrettánda sinn sem Nýræktarstyrkjum er úthlutað, en alls hafa rúmlega sextíu höfundar hlotið þessa viðurkenningu frá upphafi, árið 2008 - fyrir afar fjölbreytt verk. Meðal þeirra sem hlotið hafa Nýræktarstyrki eru höfundarnir Fríða Ísberg, Hildur Knútsdóttir, Arngunnur Árnadóttir, Dagur Hjartarson, Arndís Þórarinsdóttir, Sverrir Norland, Júlía Margrét Einarsdóttir, Sigurlín Bjarney Gísladóttir, Kristín Ragna Gunnarsdóttir, Halldór Armand Ásgeirsson og Pedro Gunnlaugur Garcia að því er segir í fréttatilkynningu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert