Köld norðanátt frá norðurpólnum

Kort/Veðurstofa Íslands

Köld norðaustanátt frá norðurheimskautinu mun streyma yfir landið fram á laugardag að sögn veðurfræðings á Veðurstofu Íslands.

„Skúrir eða slydduél norðan- og austanlands en í nótt og á morgun hefur kólnað enn frekar og má þá búast við snjó- eða slydduéljum á þeim slóðum. Bjartara yfir og hlýrra sunnan- og vestanlands og getur hiti farið í 15 gráður yfir hádaginn en víða má búast við allgóðum skúradembum sunnan til á landinu eftir hádegi í dag.

Mjög svalt að næturlagi og hiti yfirleitt undir 5 stigum og líkur á næturfrosti á stöku stað, einkum aðfaranótt laugardags. Lægir á laugardag og léttir til norðan- og austanlands, en áfram svalt í veðri. Á sunnudag sér fyrir endann á þessu kuldakasti og hlýnar með suðvestanátt og á mánudag ganga skil austur yfir landið með stífri sunnanátt og rigningu, fyrst suðvestan til á landinu,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings á Veðurstofu Íslands.

Veðurhorfur næstu daga

Norðlæg eða breytileg átt, 5-10 m/s en norðaustan 5-13 með morgninum. Skúrir eða slydduél um landið norðaustanvert, skúrir um landið suðaustanvert eftir hádegi, en að mestu bjart vestanlands. Hiti 2 til 8 stig, en hiti að 14 stigum suðvestan til síðdegis.

Á föstudag:

Norðan 8-13 m/s, en norðvestan 13-18 austantil. Dálítil él norðaustan- og austanlands og hiti 0 til 5 stig, en bjart með köflum sunnan- og vestanlands og hiti að 10 stigum, mildast syðst.

Á laugardag:
Minnkandi norðanátt, 5-10 m/s eftir hádegi. Víða bjart veður, en skýjað á norðaustanverðu landinu fram eftir degi. Hiti breytist lítið.

Á sunnudag (sjómannadagurinn):
Fremur hæg suðvestlæg átt. Léttskýjað norðan- og austantil á landinu, en skýjað og dálítil súld suðvestan- og vestanlands. Hiti 7 til 14 stig.

Á mánudag:
Gengur í stífa sunnanátt með rigningu, fyrst suðvestan til. Hægari suðvestanátt og skúrir um kvöldið. Hiti 9 til 18 stig, hlýjast norðaustan til.

Á þriðjudag og miðvikudag:
Útlit fyrir suðvestlæga eða breytilega átt. Dálitlar skúrir, en úrkomulítið austantil. Milt í veðri.

mbl.is