Óskar eftir skýringum á framgöngu sérsveitarinnar

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra.
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra hefur óskað eftir skýringum á framgöngu sérsveitarmanna sem handtóku fatlaðan karlmann á áttræðisaldri í Kjós á sunnudag.

Greint var frá málinu í Fréttablaðinu í gær þar sem fram kemur að sérsveitin hafi handtekið fatlaðan mann á áttræðisaldri eftir deilu milli mannsins og nágranna hans um girðingu á landareign.

Fram kemur að lögreglan hafi fengið upplýsingar um meinta ógnandi hegðun mannsins frá nágrannanum. Sjálfur segir maðurinn ekki svo vera en segir að lögreglan hafi brotist inn í hús dóttur hans og tekið óvirkan riffil.

Maðurinn var handtekinn, farið með hann á lögreglustöðina við Hlemm og hann vistaður þar í sex klukkustundir. Eftir skýrslutöku var honum sleppt, peningalausum og forugum, segir í frétt Fréttablaðsins. 

Karl Magnús Kristjánsson, oddviti Kjósarhrepps, segir handtökuna hafi verið í vitna viðurvist og að fólki hafi fundist þetta mjög undarleg aðgerð. Til dæmis það að skammbyssu hafi verið miðað á manninn.

mbl.is