Skortur á fyrirsjáanleika vandamál

Skarphéðinn Berg Steinarsson ferðamálastjóri.
Skarphéðinn Berg Steinarsson ferðamálastjóri. mbl.is/Eggert

Fyrirtæki í ferðaþjónustunni eiga erfitt með að skipuleggja sig fram í tímann og taka þátt í endurreisn greinarinnar vegna þess að fyrirsjáanleiki er ekki fyrir hendi.

„Hann er gríðarlega mikilvægur fyrir ferðaþjónustufyrirtæki,“ segir Skarphéðinn Berg Steinarsson ferðamálastjóri, spurður út í stöðu mála í greininni.

Fá svör í boði

Opna á landamærin fyrir ferðamönnum 15. júní með tilheyrandi skimun og tveimur vikum síðar verður staðan endurmetin. Skarphéðinn Berg segir ekki mikinn fyrirsjáanleika í því og kveðst hafa heyrt í mörgum fyrirtækjum í ferðaþjónustunni sem hafa verið að fá fyrirspurnir frá sínum viðskiptavinum.

„Það vakti athygli þegar það var tilkynnt að það ætti að opna landið um miðjan júní. Þá tóku aðilar við sér erlendis upp á að huga að Íslandsferð en núna höfum við ekki mörg svör til að gefa mönnum þegar verið að spyrja hvert fyrirkomulagið verður,“ greinir hann frá. Einu svörin sem hafi fengist eru að það standi til að hafa fyrirkomulagið varðandi skimanir í sex mánuði.

Ferðamenn við Skógafoss í byrjun febrúar.
Ferðamenn við Skógafoss í byrjun febrúar. mbl.is/Rax

„Menn geta hvergi heimilda“

Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, talaði nýlega um að kostnaður við sýnatöku muni draga úr vilja ferðamanna til að heimsækja Ísland. „Ef það er minniháttar gjald munu menn ekki láta það stoppa sig en ef það er orðið eitthvað alvöru gjald mun það örugglega hafa áhrif á ferðaviljann til Íslands,“ segir Skarphéðinn Berg en bætir við að hann skilji ekki hvers vegna talað er um að enginn ferðavilji sé í heiminum vegna veirunnar. „Menn geta hvergi heimilda meðan menn gefa sér þá forsendu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert