Spurð hvort hún væri „negri“ í vinnunni

Stella María ásamt dóttur sinni.
Stella María ásamt dóttur sinni. Ljósmynd/Aðsend

Stella María Blöndal lenti í óskemmtilegu atviki nýverið þegar eldri maður spurði hana hvort hún væri negri þegar hún afgreiddi hann í verslun. Stella segir að hún hafi aldrei lent í öðru eins, en hún er ættleidd og hefur verið hér á landi síðan hún var nokkurra mánaða gömul. Hún telur að rasismi sé frekar að færast í aukana hér á landi en að minnka. 

Stella deildi upplifun sinni á Facebook í dag en hún segir að henni hefði ekki dottið til hugar að segja frá atvikinu fyrr. Eftir umræðu um rasisma í kjölfar andláts George Floyd ákvað hún að hún skyldi segja frá sinni upplifun. 

„Þetta er eldsnemma um morguninn. Hann kemur inn að afgreiðslukassanum og ég býð góðan daginn eins og venjulega. Ég finn að hann er að horfa á mig, hann lítur upp og lítur niður og mér fannst það frekar óþægilegt. Ég er bara mjög kurteis og spyr hvort hann vilji poka og hann þiggur það og allt hið besta.

Þá spyr ég hvort hann vilji að ég setji í poka fyrir hann og hann þiggur það. Á meðan ég set í pokann spyr hann mig beint út „ertu negri?“. Ég er ekki alveg vöknuð þarna og ég einhvern veginn átta mig ekki alveg á þessu. Ég bara spyr hvort hann vilji kvittun. Hann þiggur hana og svo bara fer hann. Ég tek eitt skref frá kassanum, halla mér upp við borðið fyrir aftan mig og reyni að átta mig á því hvað hafi gerst þarna,“ segir Stella.

Árið er 2020 og fólk á að vita betur

Hún er þakklát að hafa átt góða að í versluninni þegar maðurinn lét ummæli falla en bæði verslunarstjórinn og aðstoðarverslunarstjórinn hughreystu hana og vildu helst af öllu segja manninum að svona orðræða væri ekki liðin. Þá var hann þó á bak og burt. 

Stella segir að hún hafi ekki fundið fyrir miklum fordómum hérlendis en þó sé þreytandi að fólk ávarpi hana í sífellu á ensku. „Fólk sér það auðvitað ekki utan á manni hvort maður tali íslensku og ég skil það að einhverju leyti en svo þegar maður byrjar að tala íslensku þá heldur fólk áfram að tala ensku sem er alveg ofboðslega þreytandi.“

Stella telur að meira sé um rasisma í dag en var áður. „Ég vil meina að þetta sé heimska. Sumt fólk veit ekki betur en það er engin afsökun. Árið er 2020 og fólk á að vita betur.“

mbl.is