Ákærður fyrir að flytja inn á fjórða tug skotfæra

Manninum er meðal annars gefið að sök að hafa flutt …
Manninum er meðal annars gefið að sök að hafa flutt inn skammbyssu.

Karlmaður hefur verið ákærður fyrir að hafa flutt inn 33 stykki af 9/mm380R Özkursan-skotfærum, loftbyssu af gerðinni Pistol p.08, eina Zasda-kúlu fyrir loftbyssu, Magnum 380 skammbyssu og 6 Inflator Cartridges-gashylki fyrir byssu án þess að hafa til þess leyfi og án þess að gera tollyfirvöldum viðvart.

Vopnin fundust í farangri mannsins við komu hans til Keflavíkurflugvallar í júní 2018. Maðurinn er einnig ákærður fyrir að hafa á sama tíma staðið að innflutningi á samtals 1.095,38 g af kókaíni, með 87% styrkleika, ætluðu til söludreifingar hér á landi í ágóðaskyni. 

Stórfellt fíkniefnalagabrot

Um er að ræða stórfellt fíkniefnalagabrot en manninum er gefið að sök að hafa flutt fíkniefnin  til Íslands sem farþegi með flugi frá Alicante á Spáni til Keflavíkurflugvallar, falin í farangri sínum.

Ákæruvaldið krefst þess að maðurinn verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar. Sömuleiðis er gerð krafa um að kókaínið og skotfærin verði gerð upptæk.

Ákæra á hendur manninum var gefin út 30. apríl síðastliðinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert