Brettabræðurnir smíðuðu „skatepark“

„Við erum úr sveitinni fyrir norðan, við kunnum að bjarga okkur,“ segja brettabræðurnir Halldór og Eiki Helgasynir sem eru búnir að eyða síðustu dögum í að smíða glæsilegan hjólabrettagarð við Reykjavíkurhöfn og verður opnaður í dag.  

Í myndskeiðinu er rætt við þá bræður um smíðavinnuna og garðinn á Miðbakkanum en opnun hans er liður í verkefninu Sumarborgin sem er á vegum Reykjavíkurborgar.

Eiki hannaði hjólabrettagarðinn og smíðaði allar grindurnar á Akureyri þar sem hann er búsettur. Hann mætti suður með afraksturinn  á flutningabíl og hefur unnið að því síðustu daga að setja garðinn upp. „Það eru fleiri skeitarar búnir að mæta að hjálpa til. Það eru allir mjög peppaðir að fá þetta í gang,“ segir Eiki en einn af þeim sem hefur hvað mest hjálpað honum er bróðir hans, Halldór Helgason, sem er líka brettagoðsögn. Eiki hefur reynslu af því að setja upp og hanna hjólabrettagarð en hann var einmitt að opna einn slíkan á Akureyri.

Eiki segir spenning ríkja fyrir nýja hjólabrettagarðinum á Miðbakkanum hjá samfélagi hjólabrettafólks. Svæðið bjóði upp á fjölmarga möguleika og eigi að geta tekið við nokkrum fjölda fólks. „Við erum búnir að vera að prófa þetta og þetta svínvirkar,“ segir hann um garðinn.

Hann segir hjólabrettaiðkun vera meiri list heldur en íþrótt. „Allir mæta til að hafa gaman. Þetta er lífsstíll. Það eru engar landsliðstreyjur í þessu sporti. Þú ert bara þú sjálfur.“

Hann býst við góðri mætingu þegar hjólabrettagarðurinn verður formlega opnaður klukkan 17 á í dag. Viðveru hjólabrettafólks sem og annarra er fagnað og verður gaman að sjá Eika og félaga taka fyrstu bunurnar í nýja hjólabrettagarðinum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert