Hjólabrettagarður á Miðbakkanum

Eiríkur og Halldór Helgasynir.
Eiríkur og Halldór Helgasynir.

Miðbakkinn í Reykjavík verður formlega opnaður fyrir sumarið þegar nýtt hjólabrettasvæði verður tekið í notkun klukkan 17 í dag.

Hjólabrettagarðurinn er hannaður af Eika Helgasyni, sem er atvinnumaður á snjóbretti og hefur haft hjólabrettið sem áhugamál og lífsstíl frá því seint á tíunda áratuginum. 

Eiki hannaði hjólabrettagarðinn og smíðaði allar grindurnar á Akureyri þar sem hann er búsettur. Hann mætti suður með afraksturinn  á flutningabíl og hefur unnið að því síðustu daga að setja garðinn upp, samkvæmt fréttatilkynningu.

„Það eru fleiri skeitarar búnir að mæta að hjálpa til. Það eru allir mjög peppaðir að fá þetta í gang,“ segir Eiki í fréttatilkynningunni en einn af þeim sem hefur hvað mest hjálpað honum er bróðir hans, Halldór Helgason, sem er líka brettagoðsögn. Eiki hefur reynslu af því að setja upp og hanna hjólabrettagarð en hann var einmitt að opna einn slíkan á Akureyri.

Eiki segir spenning ríkja fyrir nýja hjólabrettagarðinum á Miðbakkanum hjá samfélagi hjólabrettafólks. Svæðið bjóði upp á fjölmarga möguleika og eigi að geta tekið við nokkrum fjölda fólks. „Við erum búnir að vera að prófa þetta og þetta svínvirkar,“ segir hann um garðinn.

Sjá nánar á vef Reykjavíkurborgar

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert