Lögfræðingar aðstoða útskriftarnema

Menntaskólinn á Akureyri, gamla skólahúsið fremst.
Menntaskólinn á Akureyri, gamla skólahúsið fremst. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Útskrifarnemar Menntaskólans á Akureyri (MA) eru ekki á leið í áætlaða útskrifarferð til Ítalíu á mánudag og hafa leitað aðstoðar lögfræðinga til að fá ferðina endurgreidda. Ferðaskrifstofan Tripical virðist ekki á þeim buxunum og bauð nemunum í staðinn fjóra aðra kosti; þar á meðal ferðalag til Hellu.

Auk þess var nemunum boðið upp á ferð til Ítalíu eða Krítar síðar í sumar, ferð til Ítalíu eða Krítar næsta sumar eða inneign sem nýta mátti með Tripical næstu tvö árin. Ferðaskrifstofan sendi nemendum póst í gærkvöldi þar sem þeim var gefinn frestur til klukkan tvö í dag til að ákveða sig. 

Boðið að fara út á morgun

Edda Kristín Bergþórsdóttir, sem er í forsvari fyrir ferðanefnd nemenda, segir að enginn sé á leið til Ítalíu og að nemendur hafi ekki heyrt frá ferðaskrifstofunni í dag, fyrir utan einn áhugaverðan tölvupóst:

„Við fengum póst þar sem kom fram að það væri hægt að færa ferðina frá 8. júní til 6. júní,“ segir Edda og bætir við að varla þurfi að taka fram að nemendur vilji ekki frekar fara til Ítalíu á morgun.

For­saga máls­ins er sú að út­skrift­ar­nem­arn­ir áttu ferð til Ítal­íu bókaða með Tripical 8. júní næst­kom­andi. Svo kom heims­far­ald­ur­inn upp og nem­arn­ir fóru að velta því fyr­ir sér hvort ferðin yrði far­in. 

Vona að endurgreiðslan komi á endanum

Nemendur hafa gengið á eftir svörum frá ferðaskrifstofunni. Þaðan fást fá svör en þó þau að landamæri Ítalíu séu opin og því geti nemendur farið í ferðina. 

„Það er verið að skoða þetta og við erum með lögfræðinga í málinu. Þetta hlýtur að koma, ég trúi ekki öðru,“ segir Edda þegar hún er spurð hvort hún búist við því að fá ferðina endugreidda en nemendur sem ætluðu að fara til Ítaliu greiddu 200.000 krónur á mann fyrir ferðina. 

Edda segir að hinir fjórir kostirnir séu ekki spennandi. Auk þess séu nemendur reiðir og pirraðir út í ferðaskrifstofuna og geti ekki hugsað sér að fá inneignanótu eftir þessi samskipti.

„Þetta er leiðinleg framkoma,“ segir Edda sem gerir ráð fyrir því að hópurinn fari einfaldlega saman í útilegu eftir útskrift á þjóðhátíðardaginn.

mbl.is