Milljón króna eyðsla á Spáni á kostnað systranna

Ákær­an verður þing­fest í Héraðsdómi Reykja­vík­ur í næstu viku.
Ákær­an verður þing­fest í Héraðsdómi Reykja­vík­ur í næstu viku. mbl.is/Þór

Kona á sextugsaldri sem hefur verið ákærð fyrir að hafa dregið fé af heilabiluðum systrum á tíræðisaldri í árabil, eyddi milljón krónum á Spáni á kostnað systranna. 

Ákærða hafði umboð yfir fjármálum yngri systurinnar og fékk útgefin þrjú debetkort á nafni yngri systurinnar. Ákærðu er gefið að sök að hafa misnotað aðstöðu sína frá árinu 2012 til ársins 2017 og dregið sér rúmar 75 milljónir af reikningum yngri systurinnar. 

Í kærunni kemur fram að ákærða hafi í 2.166 tilvikum dregið samtals 23.327.502 krónur af bankareikningum yngri systurinnar og ráðstafað þannig fjármunum hennar heimildarlaust bæði í eigin þágu og fjölskyldu sinnar, en eiginmaður konunnar er einnig ákærður. 

Við eitt tilefni, í apríl 2013, fór ákærða í ferð til Spánar og dró þar um milljón krónur af reikningum yngri systurinnar, þar af um 840.000 krónur í verslunarmiðstöð. 

Þá dró ákærða tæplega 600.000 krónur af systurinni vegna greiðslu til Háskólans í Reykjavík, tók tryggingar fyrir sig og dóttur sína, greiddi umtalsverðar upphæðir hjá bæði innlendum og erlendum fataverslunum, veitingahúsum, snyrtivöruverslunum, hárgreiðslustofum, bifreiðaverkstæðum, húsgangaverslunum og leikhúsum. 

Þá notaði ákærða fjármuni systurinnar til að greiða samtals 560.000 krónur á tannlæknastofu við nokkur tilefni, 250.000 krónur í versluninni Svefn og heilsa á Akureyri og samtals tæplega 530.000 krónur í Hörpu tónlistarhúsi. 

Þá er ákærðu gefið að sök að hafa dregið sér í 34 tilvikum samtals rúmlega 52 milljón krónur af bankareikningi  yngri syst­ur­inn­ar, ann­ars veg­ar með því að taka fjár­muni út í reiðufé og hins veg­ar með gjald­eyri­s­kaup­um og ráðstafa þeim svo heim­ild­ar­laust í eig­in þágu og fjöl­skyldu sinn­ar.

Ákæru­valdið krefst þess að hjón­in verði dæmd til refs­ing­ar og til greiðslu alls sak­ar­kostnaðar og ger­ir meðal ann­ars kröfu um að hús­eign hjón­anna, Audi Q7-jeppi og list­mun­ir eft­ir Ásmund Sveins­son, Jó­hann­es Kjar­val og Ein­ar Jóns­son verði dæmd­ir upp­tæk­ir. Þá krefjast skipaðir lögráðamenn systr­anna skaðabóta fyr­ir þeirra hönd. 

Ákær­an verður þing­fest í Héraðsdómi Reykja­vík­ur í næstu viku.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert