„Mjög skýr skilaboð“

Guðbjörg Pálsdóttir, formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.
Guðbjörg Pálsdóttir, formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga. mbl.is/Sigurður Bogi

„Það er fyrst og fremst ánægjulegt hversu mikil þátttaka var í atkvæðagreiðslunni. Einnig erum við að fá mjög skýr skilaboð með því að það skuli rúm 85% vera tilbúin í aðgerðir,“ segir Guðbjörg Pálsdóttir, formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga, í samtali við mbl.is.

Félagsmenn Fíh sem starfa hjá ríkinu hafa samþykkt verkfallsboðun og nái aðilar ekki saman mun ótímabundið verkfall hefjast klukk­an 8 mánu­dag­inn 22. júní 2020. Verk­falls­boðunin var samþykkt með mikl­um meiri­hluta, en 85,5% sögðu já. Nei sögðu 13,3% og 1,2% skiluðu auðu. Þátt­taka í at­kvæðagreiðslunni var 82,2% en verkfallið nær til um 2.600 félagsmanna.

„Ég er búin að heyra í ríkissáttasemjara og líka aðeins í formanni samninganefndar ríkisins og það hafa allir áhuga á því að halda samtalinu áfram,“ segir Guðbjörg. Ekki hefur verið boðað til samningafundar en hún segist eiga von á fundarboði. „Það er mikið undir fyrir ríkið að heilbrigðiskerfið geti starfað áfram.“

mbl.is