Rúmlega fimmtungur sótti sér símenntun

mbl.is/Hari

Um 40.400 manns á aldrinum 25-64 ára tóku þátt í símenntun árið 2019, eða 21,6% landsmanna á þessum aldri.

Þátttaka í símenntun jókst lítillega frá síðasta ári en hefur farið minnkandi frá árinu 2015 þegar 27,5% landsmanna tóku þátt í símenntun. Fleiri 25-64 ára einstaklingar sóttu skóla árið 2019 en árin á undan á meðan þátttaka í öðrum tegundum símenntunar, svo sem námskeiðum og annarri fræðslu með leiðbeinanda utan skóla (t.d. ráðstefnum), var svipuð og árið 2018. Þetta kemur fram á vef Hagstofu Íslands.

Þátttaka í símenntun var mest á meðal háskólamenntaðra en 27,5% háskólamenntaðra landsmanna á aldrinum 25-64 ára sóttu sér fræðslu árið 2019. Hlutfallið var lægra á meðal þeirra sem höfðu lokið starfs- og framhaldsmenntun, rúmlega 20%, og lægst meðal þeirra sem eingöngu höfðu lokið grunnmenntun, rúm 11%.

Konur voru um 56% allra á aldrinum 25-64 ára sem sóttu sér fræðslu, eða 22.700 talsins, en karlar voru 17.700. Þátttaka í símenntun var mest í aldurshópnum 16-24 ára, 63,5%, sem skýrist af því að stór hluti aldurshópsins stundar framhaldsskóla- og háskólanám. Minnst þátttaka var hins vegar í aldurshópnum 55-74 ára, eða 11,6%.

Ísland er í fimmta sæti 35 Evrópuþjóða þegar litið er á þátttöku 25-64 ára í símenntun árið 2019. Aðeins í Svíþjóð (34,3%), Sviss (32,3%), Finnlandi (29,0%) og Danmörku (25,3%), er þátttakan meiri en á Íslandi. Meðaltal Evrópusambandsríkjanna 28 er 11,3%.

Símenntun er skilgreind sem öll menntun sem einstaklingur sækir, hvort sem er formlegt nám í skóla eða menntun utan skóla, s.s. á námskeiði, fyrirlestri eða á ráðstefnu. Sami einstaklingur getur bæði verið á námskeiði, í annarri fræðslu og í skóla en hver einstaklingur er aðeins talinn einu sinni í heildartölum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert