„Stemningin er alveg farin núna“

Krít hefur verið vinsæll áfangastaður meðal Íslendinga í áratugi.
Krít hefur verið vinsæll áfangastaður meðal Íslendinga í áratugi. Ljósmynd/Thinkstock

„Það er mikil óvissa í gangi og við erum að fá mjög misvítandi skilaboð. Upphaflega hélt við að við værum að vinna þetta sem teymi en ég hef ekki fundið fyrir því,“ segir Sigrún Júlía Ólafsdóttir, formaður nemendafélags Menntaskólans í Kópavogi (MK). Vísar hún þar til útskriftarferðar nemenda skólans til Krítar 14. júní nk.

Nemendafélagið bókaði ferðina í gegnum ferðaskrifstofuna Tripical eins og Menntaskóli Akureyrar og Fjöl­braut­ar­skóli Vest­ur­lands. Lítið hefur heyrst frá ferðaskrifstofunni að undanförnu, en þó var nokkrum nemendum MK sendur póstur í gær. Þar kom fram að ferðin sé á áætlun þrátt fyrir heimsfaraldur kórónuveiru.

„Við erum í raun bara í algjörri biðstöðu. Þeir voru áður búnir að bjóða okkur endurgreiðslu á ferðinni, en nú þegar fara á í ferðina eru einhverjar breytingar á því. Við vitum því ekki alveg hvernig staðan er akkúrat núna,“ segir Sigrún Júlía og bætir við að lítil stemning sé fyrir ferðinni meðal nemenda MK.

Ekki spennt fyrir ferðinni

„Stemningin er alveg farin núna og ég held að það sé bara ekki sniðugt að fara. Hópurinn er sammála um að sleppa því að fara,“ segir Sigrún Júlía, en rétt um 300 nemendur MK voru skráðir í ferðina. Að sögn Sigrúnar Júlíu munar er mikilvægt fyrir hópinn að fá ferðina endurgreidda. 

„Þetta eru 200 þúsund krónur sem er mjög mikið. Fyrir 18 ára krakka getur þetta verið aleigan bara og þegar ástandið er svona tímir maður ekki að eyða þessum peningum,“ segir Sigrún Júlía. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert