Telja Ísland ágætan fyrsta áfangastað

Ferðalangar eru hvattir til að skoða hvernig kórónuveirufaraldurinn hefur haft …
Ferðalangar eru hvattir til að skoða hvernig kórónuveirufaraldurinn hefur haft áhrif á daglegt líf á áfangastaðnum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Nokkrir vinsælir ferðamannastaðir eru nú farnir að huga að því að opna landamæri sín. Þeirra á meðal er Ísland og þar sem Ísland verður eitt fyrsta landið til að opna hefur Washington Post tekið saman góð ráð fyrir ferðaþyrsta Bandaríkjamenn sem vilja heimsækja landið.

Í fyrsta lagi er ferðalöngum ráðlagt að skoða kórónuveirutölfræði landsins sem þeir hyggja á ferðalag til, til að ganga úr skugga um að þar sé tíðni nýrra smita lág. Á Íslandi hafi t.d. aðeins 1.806 smit verið staðfest og aðeins fjögur á undanförnum tveimur vikum. Þá sé einnig mikilvægt að kynna sér heilbrigðiskerfi áfangastaðarins, bæði með tilliti til getu þess til að taka á móti ferðamönnum og hversu hátt hlutfall þeirra sem veikst hafa af COVID-19 hafa náð sér. Hlutfallið er hærra en 99% á Íslandi.

Í þriðja lagi eru ferðalangar hvattir til að skoða hvernig kórónuveirufaraldurinn hefur haft áhrif á daglegt líf á áfangastaðnum. Í umfjöllun WP segir að á hápunkti faraldursins hafi verslanir á Íslandi verið opnar og að ferðamenn geti treyst á að ferðir séu farnar, að veitingastaðir, líkamsræktir, barir, sundlaugar og næturklúbbar verði opnir með ákveðnum takmörkunum, en að starfsemi hótela geti verið í lágmarki.

Þá er ferðalöngum ráðlagt að kynna sér hvernig skimunum sé háttað á áfangastaðnum og hversu marga þeir þurfi að umgangast á ferðalaginu. Á Íslandi bjóðist ferðamönnum þrír valmöguleikar: skimun, sóttkví eða að að sýna vottorð um skimun. Þá sé Ísland góður áfangastaður að því leyti að það sé óþéttbýlasta land Evrópu og að þangað fari fólk einkum til að njóta náttúrunnar úti við, en ekki til að vera í mannþröng.

En þrátt fyrir að áfangastaðurinn sé búinn að ná tökum á kórónuveirufaraldrinum þarf að huga að ferðalaginu, sem samkvæmt umfjöllun WP er einn stærsti áhættuþátturinn, og eru ferðalangar hvattir til að kynna sér reglur flugfélaganna. Þá eru ferðalangar hvattir til að kynna sér þann kostnað sem getur fylgt skimunum á flugvöllum, auk þess sem þeir skuli hafa í huga að niðurstöður skimana séu ekki 100% áreiðanlegar.

Loks eru ferðalangar með undirliggjandi sjúkdóma, sérstaklega í öndunarfærum, hvattir til að fresta ferðalögum um sinn. Þá er heilsuhraustum einnig ráðlagt að bíða í að minnsta kosti nokkrar vikur til að sjá hvernig gengur. „Þú vilt ekki verða tilraunadýr.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert