Þórhallur miðill dæmdur fyrir kynferðisbrot

Landsréttur.
Landsréttur. mbl.is/Hallur

Landsréttur staðfesti í dag átján mánaða fangelsisdóm yfir Þórhalli Guðmundssyni miðli vegna kynferðisbrots gegn rúmlega tvítugum manni. Þórhallur var sakfelldur fyrir að hafa fróað manninum án samþykkis hans.

Þórhallur framdi brotið árið 2010 en maðurinn lagði fram kæru sex árum síðar. Dómur, sem Landsréttur staðfesti í dag, var kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjaness í fyrra. Dráttur á málinu er metinn til refsilækkunar.

Maðurinn kynntist Þórhalli á miðilsfundi þremur eða fjórum árum áður en brotið var framið. Í framhaldi af öðrum fundi fór hann svo í heilun til miðilsins vegna bakverkja. 

Maðurinn fór reglulega í tíma til Þórhalls og fram kemur að miðillinn hafi orðið eins og góður vinur mannsins.

Þórhallur hafi hins vegar farið að sýna af sér vafasama hegðun í byrjun árs 2010. Hann hafi tekið á móti manninum í bol og stuttbuxum eða náttbuxum og farið að taka manninn úr bolnum og farið að teygja á honum.

Fram kemur í dómnum að málin hafi þróast áfram þar til Þórhallur braut á manninum. 

Þórhallur neitaði sök en var sakfelldur, bæði í Héraðsdómi Reykjaness og Landsrétti. Hann var auk þess dæmdur til að greiða manninum eina og hálfa milljón í miskabætur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert