Eineggja tvíburar semidúxuðu báðir með 9,7

Hér eru systurnar á útskriftardaginn en Katrín er til vinstri …
Hér eru systurnar á útskriftardaginn en Katrín er til vinstri og Kristín til hægri. Ljósmynd/Aðsend

Eineggja tvíburarnir Katrín Lára og Kristín Þóra Sigurðardætur útskrifuðust á dögunum úr Verzlunarskóla Íslands. Það væri ekki í frásögur færandi nema fyrir þær sakir að báðar urðu þær semidúx og útskrifuðust með sömu einkunn, hvorki meira né minna en 9,7. 

Tvíburarnir hljóma afar samrýmdir og segja að þær hafi hvatt hvor aðra í gegnum námið. Þær stefna á nám í viðskiptafræði í framhaldinu og ætla í sama skóla. 

„Í raun kom þetta okkur mjög mikið á óvart. Við vissum alveg að við hefðum staðið okkur vel og við værum með góða einkunn en við bjuggumst alveg tvímælalaust við því að einhver væri með hærri einkunn en við þar sem þessi árgangur er mjög sterkur,“ segir Katrín en dúx skólans, Snædís Edwald Einarsdóttir, hlaut meðaleinkunnina 9,73.

Kristín segir að þær hafi alltaf lagt mikinn metnað í námið og haft mikinn áhuga á því.  

„Síðan ég man eftir mér höfum við alltaf reynt að gera okkar allra besta, alltaf haft mikinn áhuga á námi og haft mjög gaman af því.“ 

Engin samkeppni, bara samvinna

Katrín segir að það hafi aldrei verið nein samkeppni á milli þeirra systra. 

„Þetta er mjög mikil samvinna, markmiðið okkar var alltaf að við myndum báðar standa okkur vel og við höfum eiginlega alltaf verið þannig. Önnur okkar hefur aldrei reynt að verða eitthvað betri en hin. Við bara dýrkum hvor aðra og viljum að við stöndum okkur báðar vel og erum í raun alltaf með sameiginleg markmið.“

Kristín segir að þær hafi eiginlega alltaf lært saman en þær voru báðar á viðskiptabraut og í sama bekk. Þær voru því alltaf saman í kennslustundum og lærðu síðan saman fyrir próf og unnu saman í verkefnum. 

„Oft sögðu aðrir í skólanum að þeir vildu óska þess að þeir ættu tvíbura líka því það hljómaði svo skemmtilega að fara heim og læra saman. Það virkar mjög vel fyrir okkur en ég er ekki viss um að þetta myndi virka fyrir alla, að vera saman allan daginn og læra saman.“

Stelpurnar höfðu gaman að skólagöngunni og nutu þess að læra …
Stelpurnar höfðu gaman að skólagöngunni og nutu þess að læra ýmislegt nýtt. Ljósmynd/Aðsend

Alltaf gaman að læra eitthvað nýtt

En hvað þarf maður að gera til að ná svo hárri einkunn? 

„Fyrst og fremst er mikilvægt að hafa mikinn áhuga á því sem maður er að læra, hafa gaman að því og vera með jákvætt hugarfar þegar maður sest við stólinn og byrjar að reikna eða lesa. Ég held að það sé það sem skipti mestu máli,“ segir Katrín. 

„Flestir eru kannski með þá hugsun að það sé voða leiðinlegt að læra og það sé miklu skemmtilegra í símanum en okkur fannst alltaf mjög skemmtilegt að lesa um einhverja nýja hluti,“ bætir Katrín við. 

Geta loksins sagst vera jafn klárar

Spurðar hvernig tilfinning það var að fá að fagna þessum góða námsárangri saman segja stelpurnar:

„Þetta var eitthvað svo óraunverulegt og ótrúlega skemmtilegt. Við hefðum aldrei orðið ósáttar þó við hefðum ekki fengið sömu einkunn en það var samt ótrúlega gaman að enda þetta svona,“ segir Katrín. 

Kristín bætir því við að þær séu oft spurðar hver þeirra sé klárari. Nú geti þær sýnt fram á að þær séu jafn klárar. 

„Maður vill ekkert alltaf vera að bera sig saman við hinn tvíburann en það hefði auðvitað verið leiðinlegt ef önnur okkar hefði fengið eitthvað mun lægra en hin.“

„Dýrka“ kennarana sína

Stelpurnar segjast ekki hafa lært allan sólarhringinn og eiga þær hin hefðbundnu áhugamál ungmenna, að horfa á þætti, hitta vini og verja tíma með fjölskyldunni. Þær stefna báðar á viðskiptafræði í haust. 

„Við erum ekki alveg vissar um það hvort við förum í nám hér á Íslandi eða í Danmörku því við sóttum líka um þar en niðurstöðurnar eru ekki komnar frá Danmörku. Við ætlum saman í skólana,“ segir Kristín. 

Að lokum þakka þær öllum sem þær kynntust í Verzló. 

„Okkur fannst mjög gaman í skólanum og við þökkum bekkjarfélögunum fyrir skemmtilega tíma. Kennararnir í Verzló voru allir ótrúlega skemmtilegir og við dýrkum þau öll.“

mbl.is