Engin áform um að raska skýlinu

Reykjavíkurflugvöllur.
Reykjavíkurflugvöllur. mbl.is/Sigurður Bogi

Formaður skipulags- og samgönguráðs Reykjavíkurborgar segir engin áform um að rífa viðhaldsstöð flugfélagsins Ernis við Reykjavíkurflugvöll.

Skýli flugvallarins stendur nærri ströndinni þar sem ráðgert er að Fossvogurinn verði brúaður frá Vatnsmýrinni og yfir til Kársness. Greint hefur verið frá því í fjölmiðlum að leggja eigi veg þar sem skýlið stendur samkvæmt áætlun borgaryfirvalda. 

Sigurborg Ósk Haraldsdóttir, borgarfulltrúi Pírata og formaður skipulagsráðs, segir engin áform liggja fyrir um veginn. 

„Það hefur engin ákvörðun um málið verið tekin. Við erum að skipuleggja byggð í Skerjafirði sem er mjög metnaðarfullt og vandað skipulag og sem mun ekki hafa áhrif á rekstur innanlandsflugs á flugvellinum, eins og við höfum sagt og er í samræmi við gildandi samkomulag,“ segir Sigurborg. 

Sigurborg Ósk Haraldsdóttir, borgarfulltrúi Pírata.
Sigurborg Ósk Haraldsdóttir, borgarfulltrúi Pírata. Mbl.is/Hari

Hún segir að fyrstu drög hafi gert ráð fyrir því að vegurinn myndi liggja þar sem skýlið stendur, en að það hafi fljótt komið í ljós að þau drög myndu ekki ganga eftir. 

„Í fyrstu tillögu að þessum vegi átti hann að liggja þar sem skýlið er, það komu fram mótmæli gegn þeim áformum á fundi með Erni og þá var strax farið í að skoða aðrar mögulegar leiðir fyrir veginn. Við erum ekki að fara raska þessu skýli á meðan flugvöllurinn er í rekstri og það er engin ástæða til að óttast það,“ segir Sigurborg.  

„Eftir fundinn með Erni var verkfræðistofu einfaldlega falið að kanna aðra valkosti fyrir veginn. Það á alveg eftir að skoða hvaða valkostur verður valinn, hann á ekki að hafa áhrif á flugskýli Ernis.“

Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn, sagði í samtali við mbl.is að áformin stæðust ekki stjórnarskrá, hvað þá samkomulagið sem borgin gerði við ríkið í nóvember síðasta árs. Þá hefur Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, sagt að „áform um að leggja veg í gegn­um friðað hús eru frá­leit og eng­in sómakær sveit­ar­fé­lög taka held­ur eign­ir bóta­laust af íbú­um sín­um. Allra síst aðilum sem hafa þjónað sjúkra­flugi og líf­færa­flutn­ing­um fyr­ir lands­menn í ára­tugi. Þannig hag­ar sér eng­inn.“

Sigurborg segir þetta vera óþarfa upphlaup í ljósi þess að engin áform liggi fyrir. 

„Fyrstu drög gerðu ráð fyrir veginum þarna og það var rætt við Erni. Þá kemur í ljós að þetta í raun og veru gengur ekki og það virðist ekki hafa skilað sér áfram. Helmingur flugskýlisins er svo friðaður þannig að það bara mætti ekki raska því. Þetta var bara fyrsta kast og það kom bara strax í ljós að það gekk ekki upp og við ákváðum strax að önnur leið skyldi farin. Þetta er í rauninni óþarfa upphlaup að mínu mati en aðal atriðið er að starfsemi flugvallarins skerðist ekki og að þetta vandaða skipulag geti haldið sér.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert