Ekkert heyrt frá borginni í mánuð

Hörður Guðmundsson, forstjóri flugfélagsins Ernis.
Hörður Guðmundsson, forstjóri flugfélagsins Ernis. mbl.is/Eggert

Fulltrúar Reykjavíkurborgar hafa ekki haft samband við forstjóra flugfélagsins Ernis frá því að félaginu var tilkynnt á fundi 30. apríl að færa yrði flugskýli þess þar sem borgin hygðist leggja veg í gegnum svæðið. Þetta segir Hörður Guðmundsson, forstjóri félagsins.

Í samtali við mbl.is í gær sagði Sigurborg Ósk Haraldsdóttir, formaður skipulagsráðs Reykjavíkur og borgarfulltrúi Pírata, að engin áform væru uppi um að rífa flugskýlið. „Í fyrstu til­lögu að þess­um vegi átti hann að liggja þar sem skýlið er, það komu fram mót­mæli gegn þeim áform­um á fundi með Erni og þá var strax farið í að skoða aðrar mögu­leg­ar leiðir fyr­ir veg­inn.“

Vísar Sigurborg þarna væntanlega til fundar sem haldinn var 30. apríl með fulltrúum borgarinnar og forstjóra Ernis. Í fundargerðinni, sem mbl.is hefur undir höndum, segir:

„Fyrir liggur að fjarlægja þarf flug­vélaverkstæði Ernis að óbreyttu, þ.e. flugskýli #6, vegna fyrirhugaðrar veglagningar í gegnum flug­­skýlið.“ 

Reykjavíkurborg og Kópavogsbær hafa í hyggju að reisa brú yfir …
Reykjavíkurborg og Kópavogsbær hafa í hyggju að reisa brú yfir Fossvoginn.

Þrátt fyrir að Sigurborg segi að tekin hafi verið ákvörðun um að láta undan að fundi loknum, hefur Hörður ekkert heyrt frá borginni. 

„Það hafði enginn samband fyrr en það fór að kvisast út hvað væri í gangi,“ segir Hörður í samtali við mbl.is en bætir við að ánægjulegt sé að borgin hafi gefið eftir enda hafi framkoman verið „yfirgengilegt ofbeldi“.

Vegurinn, sem um ræðir, er hugsaður til bráðabirgða vegna vinnu við uppbyggingu byggðar í Skerjafirði, en í framhaldinu yrði vegur til framtíðar lagður um svæðið. Hörður segist ekki vita hvaða leið verði farin við útfærslu vegarins en að hann hafi bent borgaryfirvöldum á gamla teikningu þar sem vegurinn er lagður vestan og neðan við skýlið.

mbl.is

Bloggað um fréttina