Lauk sex ára námi á þremur árum og dúxaði

Þorgeir Ólafsson, dúx FB.
Þorgeir Ólafsson, dúx FB. Ljósmynd/Aðsend

Dúx Fjölbrautaskólans í Breiðholti útskrifaðist með tvö lokapróf við brautskráningu 30. maí síðastliðinn. Hann segir það hafa verið mikið púsluspil að ljúka sex ára námi á þremur árum og stefnir á rafmagnsverkfræði í haust.

„Það var aldrei neitt markmið að dúxa. Þetta kom mér talsvert á óvart, en mig var kannski farið að gruna þetta eftir einhvern tíma. Ég hélt að ég yrði allavega í topp 10. Ég var bara með 8,8 þannig að ég hélt að einhver yrði hærri en ég, en ég var náttúrulega að klára tvö próf á þremur árum, rafvirkjann og stúdentinn,“ segir Þorgeir Ólafsson, dúx FB. 

Stúdentspróf og próf í rafvirkjun er hvort um sig þriggja ára nám, en Þorgeir gerði sér lítið fyrir og lauk báðum prófum á þremur árum. 

„Ég þurfti að vera í kvöldskóla allar annirnar þannig að ég var bara í skólanum alla daga og kvöld. Þetta var mikil vinna en hún er að skila sér. Ég notaði bara helgarnar í að læra. Ef að það var svo kannski próf daginn eftir og ég í kvöldskóla þá þurfti maður bara að læra frameftir,“ segir Þorgeir.

Hann segir mikilvægt að hafa metnað fyrir náminu og sinna því af fullum hug. 

„Það er náttúrulega númer eitt að vinna bara heimavinnuna, fylgjast með í tíma og mæta. Það er örugglega svona aðalatriðið til að ná árangri, ég held að flestir séu sammála um það.“ 

Þorgeir ætlar í rafmagnsverkfræði við Háskóla Íslands í haust. 

„Það er stefnan. Ég er núna að læra fyrir sveinspróf í rafvirkjun, ætla að klára það og vinna svo í sumar sem rafvirki. Ég er samt búin að vinna núna í 2 ár sem rafvirki á sumrin og um jólin. Maður þarf að vinna 48 vikur til að ná að útskrifast, þannig að það var líka pakki, að reyna að ná þeim tíma inn í þessi þrjú ár. Þetta bara þurfti allt að smella saman einhvern vegin. Þetta var alveg púsluspil.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert