„Sumarið meira og minna úti“

Ólafur Laufdal í einni svítunni á Hótel Grímsborgum.
Ólafur Laufdal í einni svítunni á Hótel Grímsborgum. mbl.is/RAX

Eigandi Hótels Grímsborga, Ólafur Laufdal, segir ómögulegt að reka hótelið einungis á íslenskum ferðamönnum, en nánast engir erlendir ferðamenn hafa komið hingað til lands síðustu mánuði vegna heimsfaraldurs kórónuveiru. Hann telur það eiga eftir að taka ferðaþjónustuna fleiri ár að ná sér aftur á strik. 

„Það er alveg útilokað að reka hótelið á einungis íslenskum ferðamönnum. Á virkum dögum er ekki mikið um Íslendinga, það er rétt svo um helgar. Þannig að það væri útilokað að reka þetta þannig. Það er ekki einasta hótel á landinu sem myndi ganga upp með því að reka það á Íslendingum,“ segir Ólafur, en Hótel Grímsborgir er annað tveggja 5 stjörnu hótela landsins. 

Hann segir fáa Íslendinga hafa bókað gistingu í sumar á virkum dögum. Hann, líkt og fjölmargir aðrir rekstrareigendur, hefur haft gistingu á Grímsborgum á tilboði að undanförnu í því skyni að höfða til Íslendinga. 

„Við erum búin að vera með tilboð, 50% afslátt, en reksturinn myndi ekki ganga upp til lengdar með svona afslætti. Það vantar alveg ferðamennina í þetta.“

Ólafur segir flesta viðskiptavini hótelsins vera efnameiri ferðamenn. Stærsti markhópur hans eru Bandaríkjamenn og síðan Englendingar, Þjóðverjar, Japanir og margir frá Mið-Austurlöndum. 

„Og núna er ekkert Delta, American Airlines, United, Air Kanada. Þeir eru allir hættir við flug til Íslands í sumar þannig að það verður eitthvað mjög takmarkað af Bandaríkjamönnum. Bara með Icelandair kannski þegar það fer í gang. En eins og ástandið er núna þá sé ég ekki marga Bandaríkjamenn fara að koma hingað, allavega ekki næstu tvo mánuði,“ segir Ólafur. 

„Það þýðir ekki að blekkja sig“

Aðspurður út í 15.000 króna gjald sem ferðamenn munu þurfa að greiða kjósi þeira að fara í skimun við komuna til landsins á Keflavíkurflugvelli í stað þess að fara í 14 daga sóttkví, segir Ólafur að svo hátt gjald muni án efa hafa mikil áhrif á vilja ferðamanna til að koma hingað til landsins. 

„Ég held að þetta muni hafa mikil áhrif. Ég held ekki að fólk komi til með að vilja borga þetta. Þú getur flogið hingað með lággjaldaflugfélögum fyrir svipaða og jafnvel lægri upphæð og þá vilt þú ekki þurfa að borga slíka upphæð aftur. Það verða örugglega margir sem munu setja þetta fyrir sig.“

Þó bendir Ólafur á að efnameiri ferðamenn muni eflaust frekar vilja greiða slíkt gjald. 

Ólafur segir reksturinn hafa verið erfiðan undanfarna mánuði. Hann telur að þrátt fyrir fyrirhugaða opnun landamæra eftir rúma viku verði hér fáir ferðamenn í sumar. 

„Júní er allur farinn og júlí eiginlega líka, það er svona ein og ein bókun sem kemur inn. Þó að landamærin opnist og hingað koma einhverjar örfáar vélar þá munu allir þessir rekstraðilar bítast um þá örfáu ferðamenn sem koma hingað. Það þýðir ekki að vera að blekkja sig að það séu einhverjir að fara koma.“

Ólafur segir að ferðaþjónustan eigi líklega eftir að verða lengi að jafna sig eftir kórónuveirufaraldurinn. Það muni ekki gerast með opnun landamæra 15. júní. 

„Íslendingar eru alltaf að plata sjáfan sig. Það héldu allir að þetta væri allt að fara í gang og það myndi bara hrúgast hingað inn fólk, en þetta er bara eins og hver önnur vitleysa. Það verður ekki þannig að hingað komi ferðamenn í tugþúsunda vís. Sumarið er bara meira og minna úti,“ segir Ólafur.

„Vonandi skánar þetta eitthvað í haust. En maður sér þetta líka á Íslendingum, maður heyrir ekki af mörgum sem ætla að ferðast erlendis á næstunni. Það er það sama með ferðamenn sem ætluðu að koma til Íslands.“

Gjaldþrot WOW air hafi haft mikil áhrif

Fyrir faraldurinn hafi eflaust verið farið að halla eitthvað undan fæti eftir gríðarlega aukningu ferðamanna hér á landi á síðustu árum. 

„Íslendingar segja alltaf að þetta reddist bara. En það er ekki þannig. Auðvitað kemur þetta upp aftur, en ég held að það eigi eftir að taka langan tíma, mörg ár. Það eru alltof margir gististaðir, það er verið að byggja fleiri og það er bara engin þörf fyrir þetta. Löngu áður en þessi veira kom upp hafa mörg hótel verið hálftóm í vetur,“ segir Ólafur og bætir við að fall WOW air hafi haft mikil áhrif á íslenska ferðaþjónustu. 

„Það er algjör misskilningur að það hafi aðallega flogið hingað efnaminni ferðamenn með WOW air sem eyddi litlum pening í landinu, skildi lítið eftir sig. Það voru fjölmargir stórefnaðir Bandaríkjamenn sem komu til mín og flugu með WOW, enda fór WOW á svo marga áfangastaði sem aðrir flugu ekki á. Enda var WOW gríðarlega vinsælt flugfélag með flottar vélar.“

Á laugardögum eru sérstakar sýningar fyrir hótelgesti á Grímsborgum. Í …
Á laugardögum eru sérstakar sýningar fyrir hótelgesti á Grímsborgum. Í júní treður Gunnar Þórðarson upp á Bee Gees sýningu, en Gunnar er hér með Ólafi. mbl.is/Þorgeir
Frá Bee Gees sýningunni.
Frá Bee Gees sýningunni. mbl.is/Þorgeir




mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert