Flugumferð stýrist af afkastagetu við skimun

Víðir Reynisson á upplýsingafundi í Ráðherrabústaðnum í dag.
Víðir Reynisson á upplýsingafundi í Ráðherrabústaðnum í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Umferð um Keflavíkurflugvöll mun að einhverju leyti þurfa að stýrast af getu heilbrigðiskerfisins til þess að skima fyrir veirunni. Ráðgert er að hægt verði að taka allt að 2.000 sýni á sólarhring og verður sýnataka aðlöguð að lendingartímum.

„Við munum reyna að aðlaga okkur því að geta þjónustað völlinn eins mikið og þarf. Það verður auðvitað þannig að fyrstu tvær vikurnar er ekki næstum því eins mikið framboð á flugi, en þær spár sem við höfum séð er að flugið er auðvitað eitthvað fram á kvöld og við munum reyna að þjónusta þetta eins og hægt er,“ sagði Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, í samtali við mbl.is að loknum upplýsingafundi í Ráðherrabústaðnum vegna opnunar landamæra 15. júní.

Unnið er að uppsetningu sýnatökubása í flugstöðinni, sem verða tíu …
Unnið er að uppsetningu sýnatökubása í flugstöðinni, sem verða tíu fyrst um sinn en með möguleika á viðbót. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Unnið er að uppsetningu sýnatökubása í flugstöðinni, sem verða tíu fyrst um sinn en með möguleika á viðbót, og verða þeir staðsettir áður en komið er að landamæraeftirliti. „Aðstæðurnar eru þannig núna að það fara allir í gegnum landamæraskoðun af því við erum með innri landamærin lokuð, sem er hluti af þessu verkefni. Sýnatakan verður áður en farið er í gegnum landamæraskoðun, og þegar henni er lokið og fólk er komið í gegnum landamæraskoðun getur fólk sótt sínar töskur og farið.“

„Að einhverju leyti þarf umferðin um flugvöllinn að stýrast af getunni við sýnatökuna, þá erum við fyrst og fremst að hugsa um það að fólkið þurfi ekki að bíða mjög lengi á flugvellinum. Það getur verið mjög snúið í einhverjum tilfellum, en við munum reyna eins og við getum að dreifa umferðinni yfir daginn til þess að viðskiptavinirnir þurfi ekki að standa mjög lengi í röð í Keflavík,“ segir Víðir og að mikið samstarf hafi verið haft við Isavia í þessum efnum.

Ferðaþjónustan verði að vera með

Víðir segir mikilvægt að hafa í huga að þegar landamærin opni verði ferðaþjónustan komin í framlínu í baráttunni gegn kórónuveirunni.

„Þetta verður það fólk sem verður í nánustu tengslum við ferðamennina og besta fólkið til þess að leggja mat á það hvert heilsufarslegt ástand þeirra er. Við verðum að treysta á að þetta fólk geti gefið góðar leiðbeiningar ef það sér að ferðamenn eru að verða veikir eða sýna einhver einkenni, og geta beint þeim inn á heilsugæsluna eða í heilbrigðiskerfið, og á sama tíma halda utan um þann hóp ef einhvern þarf að setja í sóttkví eða slíkt. Það getur enginn gert þetta nema starfsfólk ferðaþjónustunnar og þau verða bara að vera með okkur í þessu verkefni.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert