Funda með Neytendastofu og Ferðamálastofu vegna Tripical

Útskrif­ar­nem­ar Mennta­skól­ans á Ak­ur­eyri eru ekki á leið í áætlaða …
Útskrif­ar­nem­ar Mennta­skól­ans á Ak­ur­eyri eru ekki á leið í áætlaða út­skrift­ar­ferð til Ítal­íu í dag og hafa leitað aðstoðar lög­fræðinga til að fá ferðina end­ur­greidda. Neytendasamtökin, Neytendastofa og Ferðamálastofa funda vegna málsins í dag. AFP

Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna, mun funda með fulltrúum Neytendastofu og Ferðamálastofu eftir hádegi í dag vegna samskipta ferðaskrifstofunnar Tripical við útskriftarnema sem eiga bókaðar ferðir með ferðaskrifstofunni í þessum mánuði. 

Í síðustu viku greindi mbl.is frá því að Tripical hefði sent út­skrift­ar­nem­end­um Mennta­skól­ans á Ak­ur­eyri (MA) póst þar sem þeim er gef­inn sól­ar­hring­ur til að ákveða hvort þeir séu reiðubú­nir til að fara til Ítal­íu í skugga heims­far­ald­urs kór­ónu­veiru. Brottför var fyrirhuguð í dag en af henni varð ekki. Nemendur krefjast endurgreiðslu en Tripical hefur boðið nemunum fjóra aðra kosti; þar á meðal ferðalag til Hellu. 

„Við fengum málið til skoðunar seint á föstudag og höfum ráðlagt nemendunum hvernig best er að haga samskiptum sínum við Tripical,“ segir Breki í samtali við mbl.is, en hann segir það ljóst að nemendur hafi ríkari rétt en ætla megi í málflutningi Tripical síðustu daga.   

Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna.
Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna. Morgunblaðið/Sigurður Bogi

Þór­dís Kol­brún Reyk­fjörð Gylfa­dótt­ir, ferðamála-, iðnaðar- og ný­sköp­un­ar­ráðherra, sagðist fyrir helgi ekki gera ráð fyr­ir að frum­varp sitt sem varðar end­ur­greiðslur ferðaskrif­stofa verði af­greitt á þingi. Tæki frum­varpið gildi væri ferðaskrif­stof­um og flug­fé­lög­um heim­ilað að end­ur­greiða fólki með inn­eign­arnótu í stað pen­inga fyr­ir pakka­ferðir sem féllu niður vegna far­ald­urs kór­ónu­veirunn­ar.

Neytendasamtökin hafa ekki leitað beint til Tripical en Breki segir það fyrsta skref eftir fundinn í dag en tilgangurinn með honum sé fyrst og fremst að fara yfir þau réttindi sem viðskiptavinir ferðaskrifstofunnar hafa varðandi endurgreiðslu. 

Elísabet Agnarsdóttir, ann­ar eig­andi ferðaskrif­stof­unn­ar Tripical, sagði í samtali við mbl.is í lok síðasta mánaðar að ferðaskrif­stof­un væri í „patt­stöðu“ eins og marg­ar aðrar ferðaskrif­stof­ur þessa dag­ana þar sem lög­gjöf hafi víða tekið gildi í Evr­ópu sem heim­ili ferðaþjón­ustu­fyr­ir­tækj­um að „end­ur­greiða“ viðskipta­vin­um sín­um, þar á meðal ferðaskrif­stof­un­um, með inn­eign­arnót­um vegna heims­far­ald­urs kór­ónu­veiru.

Vilja ekki fá inneignarnótu eða fara til Hellu

Edda Krist­ín Bergþórs­dótt­ir, sem er í for­svari fyr­ir ferðanefnd nem­enda, segir nefndina hafa leitað til Neytendasamtakanna og Ferðamálastofu fyrir helgi. Nemendum hafa enn engin svör borist frá Tripical og mun ferðanefndin fara yfir næstu skref með lögfræðingum sínum í dag. 

„Þessi ferð var aldrei að fara í gegn, hvort sem við hefðum viljað fara eða ekki,“ segir Edda Kristín. Hún vill þó koma því á framfæri að nemendurnir vilji ekki koma óorði á ferðaskrifstofuna, forgangsmál þeirra sé að fá ferðina endurgreidda. „Við viljum ekki fá inneignarnótu eða fara til Hellu eins og staðan er núna.“

Óvissa ríkir einnig um útskriftarferð nema við Menntaskólann í Kópavogi og Fjölbrautaskóla Vesturlands en báðir hóparnir eiga pantaða ferð til Krítar 14. júní. Nemendur í skólunum hafa flestir fengið sams konar póst frá Tripical og nemar við MA. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert