„Opnun með ýtrustu varúð“

Katrín Jakobsdóttir á blaðamannafundinum.
Katrín Jakobsdóttir á blaðamannafundinum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sagði á blaðamannafundi í Ráðherrabústaðnum að unnið sé allan sólarhringinn að undirbúningi vegna sýnatöku á ferðamönnum og að flækjurnar séu óteljandi, enda verkefnið viðamikið. „Þetta er opnun með ýtrustu varúð,“ sagði Katrín.

Hún sagði gjaldtökuna, 15 þúsund krónur fyrir hvert sýni, byggja á raunkostnaði við skimunina en benti á að hún verði ókeypis fyrstu tvær vikurnar. Sýnunum verður eytt eftir að þau hafa verið tekin en tölfræðin við sýnatökuna verður hugsanlega nýtt við rannsóknir.

„Við verðum væntanlega fram á síðustu mínútu að ljúka undirbúningi fyrir skimunina,“ sagði hún og bætti við að mörg úrlausnarefni séu fram undan. 

Þórólfur Guðnason og Alma Möller á fundinum.
Þórólfur Guðnason og Alma Möller á fundinum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Katrín sagði Íslendinga vera í einstakri stöðu vegna þess að þeir búa á eyju. Þess vegna sé allt önnur aðstaða til að hefja sýnatöku hérlendis en til dæmis í nágrannaríkjunum. „Ég er búin að fylgjast með hverju skrefi og hef fulla trú á að þetta geti gengið.“

Verkefnið verður endurmetið á tveggja vikna fresti og sagði hún að upplýsingarnar úr skimuninni gætu orðið okkur til framdráttar í að berjast við kórónuveiruna.

Sýnatakan sjálf verður í samstarfi heilsugæslunnar, sýkla- og veirufræðideildar Landspítalans og Íslenskrar erfðagreiningar.

Katrín ítrekaði mikilvægi einstaklingsbundinna sóttvarnaráðstafana og kvaðst sjálf þvo sér oft og mörgum sinnum á dag.

Alma D. Möller á blaðamannafundinum.
Alma D. Möller á blaðamannafundinum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Tilraunarinnar virði

Alma D. Möller landlæknir sagði að vegna smæðar íslenska heilbrigðiskerfisins sé afar mikilvægt að gera allt sem hægt er til að lágmarka áhættuna á að veiran snúi aftur hér á landi. Þess vegna sagði hún það tilraunarinnar virði að skima alla sem koma hingað til lands. Hún sagði það vera okkar reynslu að víðtæk skimun hafi verið mjög mikilvæg í að kveða niður faraldurinn.

Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn á fundinum.
Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn á fundinum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Reynir á ferðaþjónustuna

Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn sagði verkefnið varðandi sýnatöku vera umfangsmikið og að gríðarlegur fjöldi fagfólks ynni að því. Allt kallaði þetta á mikla samhæfingu.

Hann sagði að ef veikindi koma upp hjá ferðamönnum muni það reyna mjög á ferðaþjónustuna. Hún þurfi að vita hvernig á að leiðbeina fólkinu.

mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert