„Þetta er mikil viðurkenning“

Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, er verndari TUFF Ísland. Ný …
Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, er verndari TUFF Ísland. Ný herferð samtakanna, #KIND20, fer af stað 23. júní.

Fyrrverandi ritari ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um loftslagsmál, Christiana Figueres, hefur gerst sendiherra á heimsvísu fyrir herferðina #KIND20, sem er á vegum góðgerðarsamtakanna Tuff. 

„Þetta er mikil viðurkenning. Það að hún vilji kenna sig við þessa herferð er stórkostlegt, enda er þetta konan sem leiddi saman þjóðirnar við undirritun Parísarsáttmálans,“ sagði Valdís Rán Samúelsdóttir, viðskiptastjóri #KIND20.

Christiana Figueres, fyrrverandi ritari ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um loftslagsmál, er …
Christiana Figueres, fyrrverandi ritari ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um loftslagsmál, er nú sendiherra á heimsvísu fyrir góðgerðarherferðina #KIND20, á vegum góðgerðarsamtakanna TUFF. Ljósmynd/#KIND20

Hugmyndin um góðgerðaherferðina #KIND20 spratt upp fyrir 8 vikum, út frá samkomutakmörkunum í kjölfar kórónuveirufaraldursins. Herferðin snýst um að fá fólk og fyrirtæki til að snúa bökum saman á krefjandi tímum og sýna góðvild í verki. Þá eru fyrirtæki hvött til að taka þátt í verkefninu og veita afslætti af vörum sínum í þágu málstaðarins. 

Herferðin fer af stað 23. júní og verður aðalsetningarathöfn hennar haldin á Íslandi, á kaffihúsinu Sólon. Valdís segir að Ísland hafi orðið fyrir valinu af ýmsum ástæðum:

„Í fyrsta lagi af því að Ísland er opið. Í öðru lagi af því Íslendingar eru þekktir fyrir það að standa saman á erfiðum tímum. Við komum alltaf einhvern veginn saman á erfiðum tímum og viljum alltaf hjálpa náunganum,“ sagði Valdís. 

Linda Baldvinsdóttir er erindreki herferðarinnar á Íslandi. Hún segir það mikinn heiður að fá að starfa við hlið Figueres og Önnu Bornholt Prior, sem er annar stofnandi samtakanna


Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, er verndari TUFF-samtakanna á Íslandi en þau hafa höfuðstöðvar í London. Samtökin einsetja sér að  dreifa umhyggju og samkennd til heimsins.

Figueres, er sú sem leiddi samningaviðræður Sameinuðu þjóðanna um Parísarsáttmálann 2015 til farsælla lykta og er stofnandi samtakanna Global Optimism sem fagnaði alþjóðlega umhverfisdeginum með því að taka upp myndskeið sem endurspeglar dyggðir góðvildar og skilnings.


Myndskeiðinu, sem er nú hluti af alþjóðlegum skilaboðum sem herferðin #KIND20 boðar, var opinberlega hleypt af stokkunum í þessari viku og hefur það að leiðarljósi að taka upp og birta myndskeið af fleiri tilfellum af góðvild en heildarfjöldi þeirra eru sem smitast hafa af kórónuveirunni. 80 þúsund manns hafa nú þegar gerst fylgjendur #KIND20 og alls telja áhorfin nú þegar um 1,4 milljónir. Koma áhorfendur frá alls 19 löndum sem gefur breiða skírskotun samtakanna. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert