Tvö þúsund sýni á sólarhring

Alma Möller, Katrín Jakobsdóttir og Þórólfur Guðnason.
Alma Möller, Katrín Jakobsdóttir og Þórólfur Guðnason. mbl.is/Kristinn Magnússon

Framkvæmdin vegna sýnatöku ferðamanna sem eru á leið til Íslands verður með þeim hætti að áður en farþegi leggur af stað ber honum að fylla út forskráningarform með helstu upplýsingum.

Á Keflavíkurflugvelli og annars staðar þar sem farþegar koma til landsins mun heilsugæslan sjá um sýnatökur. Farþeginn fer síðan á sinn áfangastað og er ráðlagt að fara varlega uns niðurstöður eru tilkynntar með rafrænum hætti, að því er segir í tilkynningu.

Greining sýna verður fyrst um sinn hjá Íslenskri erfðagreiningu sem hefur boðist til að lána tæki sín og aðstöðu. Í samstarfi við Íslenska erfðagreiningu mun sýkla- og veirufræðideild Landspítalans koma að þeim mælingum en einbeita sér að því að greina klínísk sýni og vera í viðbragðsstöðu vegna þess. Samhliða er fyrirhugað að efla tækjabúnað og aðstöðu hjá sýkla- og veirufræðideild þannig að hún geti annað verkefni af þessum toga.

Komi smit í ljós hjá komufarþega fer af stað hefðbundið ferli. Hringt er í viðkomandi, hann boðaður í blóðprufu meðal annars til að ganga úr skugga um hvort hann sé smitandi og hvort grípa þurfi þá til ráðstafana varðandi smitrakningu og fjarheilbrigðisþjónustu.

Undirbúningur skimunar á landamærum er í fullum gangi í samráði við Isavia, landamæraeftirlit og heilsugæslu víða um land. Áætlað er að unnt sé að greina að hámarki 2.000 sýni á sólarhring, eins og staðan er núna. Það verður því takmarkandi þáttur og þurfa þeir sem flytja farþega til landsins að laga sig að því.

Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn á fundinum í dag.
Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn á fundinum í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Reglugerð gefin út

Lagaheimild til gjaldtöku vegna sýnatökunnar er í lögum um sjúkratryggingar og mun heilbrigðisráðherra gefa út reglugerð um gjaldtökuna og fleiri atriði sem varða sýnatökuverkefnið á næstu dögum.

Sóttvarnalæknir hefur birt leiðbeiningar til ferðamanna og eru þær aðgengilegar á vef landlæknis. Í undirbúningi eru leiðbeiningar til Íslendinga sem koma til landsins því reynslan sýnir að smitleiðir eru gjarnan innan fjölskyldu eða vinahópa, að því er kemur fram í tilkynningunni.

Hvað varðar ytri landamæri Schengen-svæðisins hafa íslensk stjórnvöld innleitt ferðatakmarkanir ESB og Schengen. Á þessari stundu liggur ekki fyrir hvort að þær takmarkanir verði framlengdar til 1. júlí nk. eins og komið hefur til umræðu.

Páll Þórhallsson á fundinum.
Páll Þórhallsson á fundinum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Tíu básar 

Páll Þórhallsson, skrifstofustjóri í forsætisráðuneytinu, greindi frá því á blaðamannafundi vegna veirunnar að tíu básar verði fyrst um sinn á Keflavíkurflugvelli til að anna 200 farþegum á klukkustund.

mbl.is