Kadeco stefnir á þróun flugvallarborgar

Séð yfir Reykjanesbæ og Keflavíkursvæðið.Grænlitaði flöturinn á myndinni markar hluta …
Séð yfir Reykjanesbæ og Keflavíkursvæðið.Grænlitaði flöturinn á myndinni markar hluta þess svæðis sem verður þróað og skipulagt. Það liggur meðfram flugverndargirðingu Keflavíkurflugvallar og Reykjanesbrautar. Ljósmynd/Ozzo Photography

Kadeco, þróunarfélag Keflavíkurflugvallar, hefur ráðið til sín ráðgjafa á sviði byggðarþróunar við flugvelli með það að leiðarljósi að umbreyta flugvallarsvæðinu í kringum Keflavíkurflugvöll í miðstöð hagvaxtar og nýsköpunar þar sem lögð er áhersla á borgarþróun við flugvöll (e. airport urbanism). Er þetta kynnt sem flugvallarborg af Kadeco. Þetta kom fram á aðalfundi félagsins fyrr í vikunni, en á fundinum tók einnig við nýr stjórnarformaður.

Kadeco var upphaflega stofnað árið 2006 til að taka við, hafa umsjón með og selja þær eignir sem Bandaríkin afhentu Íslandi við brottför varnarliðsins. Síðustu eignirnar voru seldar árið 2019 og var í kjölfarið undirritað samkomulag milli ríkisins, Isaiva, Reykjanesbæjar og Suðurnesjabæjar um samvinnu við að skipuleggja, þróa, hagnýta og markaðssetja land í nágrenni vallarins. Leiðir Kadeco þá vinnu.

Á aðalfundinum kom fram að félagið hefði ráðið ráðgjafann Max Hirsh til að koma að ráðgjöf við uppbygginguna. Verður farið í alþjóðlega samkeppni um þróunaráætlun fyrir nærsvæði vallarins og verður hún haldin næsta vor.

Ísak Ernir Kristinsson hefur verið stjórnarformaður Kadeco síðustu tvö ár. Á fundinum var Steinunn Sigvaldadóttir kjörin nýr formaður stjórnar félagsins, en Ísak verður varaformaður. Einar Jón Pálsson kemur nýr inn í stjórn fyrir hönd Suðurnesjabæjar og tekur við af Ólafi Þór Ólafssyni. Stjórn félagsins skipa auk Steinunnar, Ísaks og Einars, þau Elín Árnadóttir fyrir hönd Isavia og Reynir Sævarsson fyrir hönd Reykjanesbæjar.  

Pálmi Freyr Randversson framkvæmdastjóri Kadeco.
Pálmi Freyr Randversson framkvæmdastjóri Kadeco. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is