Mótframlag ríkisins fyrir 400 íbúðir á ári

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra.
Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, hefur lagt fram frumvarp um svokölluð hlutdeildarlán, en í því fellst að ríkið leggi ákveðnum hópum fyrstu kaupenda til eiginfjárframlag í formi 20% eignar í viðkomandi húsnæði. Horft er til þess í frumvarpinu að hægt verði að veita 400 slík lán á ári á næstu 10 árum, en til samanburðar eru um þrjú þúsund fyrstu kaupendur á ári. Þetta tekur því til tæplega 15% af fyrstu kaupendum.

Í frumvarpinu kemur fram að hlutdeildarlánin séu hugsuð fyrir fyrstu kaupendur undir tilteknum tekjumörkum, eða þeirra sem ekki hafa átt íbúðarhúsnæði á síðustu fimm árum og hafa ekki ná að brúa eiginfjárkröfu við kaupin.

Horft er til þess að 75% af lánsfjármagni komi frá lánastofnun, 5% sé eigið fé kaupandans, en 20% komi í formi hlutdeildarlánsins frá ríkinu. Endurgreiða skal hlutdeildarlánið við sölu eða í síðasta lagi eftir 25 ár. Við sölu fær ríkið bæði lánsfjárhæðina sem og þá hlutfallslegu hækkun sem hefur orðið á söluverðmæti eignarinnar miðað við þann hlut sem ríkið á í eigninni. Hækki eignin því sem dæmi um 10 milljónir áður en lántaki selur hana aftur fær ríkið 2 milljónir af hækkuninni, eða 20%.

Tekið er fram að aðeins verði lánað fyrir nýjum íbúðum sem hafi verið samþykktar af Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (áður Íbúðalánasjóður) sem hagkvæmar íbúðir á grundvelli samnings byggingaraðilans við stofnunina. Þar er átt við íbúðir sem uppfylla stærðar- og verðmörk samkvæmt reglugerð sem sett verður af ráðherra. Þá verði einnig horft til þess að hvatt verði til nýsköpunar í mannvirkjagerð við uppbyggingu minni hagkvæmra íbúða fyrir fjölskyldufólk.

Heildarútgjöld ríkisins vegna þessa úrræðis eru áætluð um fjórir milljarðar á ári og að það standi undir kaupum á 400 íbúðum ár hvert. Gæti það því náð til samtals 4 þúsund íbúðakaupa á því 10 ára tímabili sem úrræðið nær til.

Vísað er til þess að þessi leið hafi verið farin í bæði Englandi og Skotlandi og góð raun náðst þar. Þá sé reynslan þaðan að lántakar selji eignir eftir um 5 ár.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert