Ótrúlegar hitatölur undir Eyjafjöllum

Hvammur undir Eyjafjöllum.
Hvammur undir Eyjafjöllum. mbl.is/Einar Falur Ingólfsson

Víða um land er milt og gott veður og hefur hiti til að mynda farið í 20 gráður í uppsveitum Árnessýslu. Samkvæmt vef Veðurstofunnar hefur hæsti hiti dagsins mælst í Hvammi undir Eyjafjöllum, 67,3 gráður. Ekki er þó um alheimshitamet að ræða, eins og flestir átta sig fljótlega á.

Skjáskot/veðurstofa Íslands

„Þetta er bilaður mælir, það er ekkert að marka þetta,“ segir hlæjandi veðurfræðingur þegar hann er spurður hvað sé í gangi á Hvammi.

„Mælirinn sýndi 66 gráður í morgun og eitthvað álíka mikið rugl fyrir helgi,“ segir veðurfræðingurinn.

Hann bætir við að um sé að ræða mæli sem Vegagerðin á og þar sé líklega unnið að því að kippa þessu í liðinn.

Veður er gott á Þingvöllum.
Veður er gott á Þingvöllum. mbl.is/Þorvaldur Örn Kristmundsson

Annars staðar á landinu er veður víða gott en 18,5 gráður hafa mælst á Þingvöllum og 20 gráður í uppsveitum Árnessýslu.

Næstu daga verður sérstaklega hlýtt norðaustan- og austanlands og veðurfræðingur hvetur fólk til að fylgjast með Egilsstöðum og nágrenni á morgun. Þar gæti veður orðið ansi gott.

Veðurvefur mbl.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert