Sóttvarnir um borð í flugvélum útfærðar

Flugvélar Icelandair.
Flugvélar Icelandair. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Icelandair er á lokametrunum við að ganga frá hvernig sóttvarnir verða útfærðar um borð í flugvélum flugfélagsins.

Þetta segir Ásdís Ýr Pétursdóttir, upplýsingafulltrúi Icelandair, og bætir við að upplýst verði fljótlega um framkvæmdina.

Landamærin verða opnuð fyrir ferðamönnum 15. júní og þá gefst fólki kostur á að fara í sýnatöku í stað þess að fara í tveggja vikna sóttkví. Fram kom í tilkynningu stjórnvalda í gær að leiðbeiningar til Íslendinga sem koma til landsins séu í undirbúningi því reynslan sýni að smitleiðir séu gjarnan innan fjölskyldu eða vinahópa.

Flugstöð Leifs Eiríkssonar.
Flugstöð Leifs Eiríkssonar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Höldum okkar striki“

Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn greindi frá því í fyrradag að flugumferð um Keflavíkurflugvöll muni að einhverju leyti þurfa að stýrast af getu heilbrigðiskerfisins til að skima fyrir kórónuveirunni. Ráðgert er að taka allt að 2.000 sýni á sólarhring og verður sýnataka aðlöguð lendingartímum.

Ásdís Ýr segir að Icelandair hafi engu breytt varðandi flugáætlun sína í tengslum við skimunina og engar áhyggjur séu uppi vegna farþeganna sem þurfa að fara í skimun. „Við höldum bara okkar striki og metum stöðuna eins og þetta þróast. Við erum ekki að gera ráð fyrir fullum vélum til að byrja með,“ segir hún og bætir við að vinnan í kringum sýnatökur fari fram í góðu samstarfi við stjórnvöld.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert