Lækki greiðslubyrði um tugi þúsunda

Samhljómur var í málflutningi ræðumanna um ágæti frumvarpsins.
Samhljómur var í málflutningi ræðumanna um ágæti frumvarpsins. Ljósmynd/Aðsend

„Það er ekki oft sem ég get tekið undir hvert einasta orð sem kemur úr munni fulltrúa hagsmunasamtaka atvinnurekenda.“ Þetta sagði Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, er hann tók til máls á blaðamannafundi sem haldinn var í dag vegna frumvarps félagsmálaráðherra um svokölluð hlutdeildarlán, næstur á eftir Sigurði Hannessyni, framkvæmdastjóra Samtaka iðnaðarins. 

Ragnar átti sæti í starfshópi um húsnæðismál sem skipaður var 2018 og er frumvarpið afrakstur þeirrar vinnu. Því er ætlað að auðvelda fólki á leigumarkaði að kaupa sína fyrstu fasteign. Ríkið mun lána fyrstu kaupendum fyrir allt að 20% af kaupverði hagkvæmra íbúða, gegn 20% eignarhlut í eigninni, og greiðist lánið til baka við sölu.

Ragnar segir að frumvarpið feli í sér miklar kjarabætur fyrir félagsmenn verkalýðshreyfingarinnar og komi til með að lækka greiðslubyrði fólks um tugi þúsunda. „Þetta er besta kjarabót sem hægt er að veita fólki á vinnumarkaði,“ segir Ragnar.

Breytir því ekki að lífskjarasamningur sé brostinn

Ragnar gerir þó athugasemd við ákvæði sem sett var inn í frumvarpið að frumkvæði fjármálaráðuneytisins, þess efnis að ríkslánið beri vexti ef tekjur lántaka hækka til muna á lánstímanum. „Það þarf að gera breytingar varðandi tekjumörk til að frumvarpið nái til allra hópa sem ætlast er til.“

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR.
Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR. Ljósmynd/Aðsend

Hlutdeildarlánin eru meðal forsenda sem sett eru í lífkjarasamningnum svokallaða milli verkalýðshreyfingarinnar, Samtaka atvinnulífsins og ríkisins. Í viðtali við Morgunblaðið í morgun sagði Ragnar að forsendur samkomulagsins væru brostnar vegna vanefnda stjórnvalda og nefndi hann þar bæði hlutdeildarlánin og að engar aðgerðir hefðu verið kynntar til afnáms verðtryggingar. 

Þrátt fyrir frumvarpið er hann enn þeirrar skoðunar að forsendur samningsins séu brostnar. „Ég tel mig ekki hafa umboð til að halda slíkan samning nema fá endurnýjað umboð til þess frá félagsmönnum,“ segir Ragnar en endurskoðun lífskjarasamninga fer fram 1. september. Óvíst er hvort þinginu tekst að afgreiða frumvarpið fyrir þann tíma enda aðeins örfáir þingfundir eftir til þingfrestunar.

Gott hagstjórnartæki

Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, er einnig jákvæður í garð frumvarpsins. Marksaðsbrestur hafi verið í byggingarmarkaði, þar sem byggðar eru dýrari íbúðir en kallað er eftir. Úrræðið er skilyrt við svokallað hagkvæmt húsnæði, og hámarksverð fyrir tilteknar stærðir íbúða sett í reglugerð. Því sé hvatt til uppbyggingar á hagkvæmu húsnæði.

Að sama skapi fái ríkið öflugt hagstjórnartæki. Stefnt er að því að byggðar verði 400 hagkvæmar íbúðir, sem falla undir verkefnið, á ári hverju, en mögulegt sé að stýra framboðinu á þann hátt að aukið sé við byggingarmagn þegar kreppir að, og dregið úr þegar uppgangur er í efnahagslífinu. „Þannig er dregið úr sveiflum á byggingarmarkaði sem leiðir til hagkvæmari uppbyggingar og meiri skilvirkni,“ segir Sigurður. Byggingarmarkaður hafi lengi verið sveiflukenndari en hagkerfið í heild, sem hefur í för með sér að fyrirtæki þurfa til skiptis að ráða til sín fólk og kaupa tæki er vel árar, en segja upp fólki og selja frá sér þegar kreppir að.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert