Þurfi ekki að reiða sig á mömmu og pabba

Ásmundur Einar Daðason félagsmálaráðherra kynnti frumvarpið á blaðamannafundi í Borgartúni …
Ásmundur Einar Daðason félagsmálaráðherra kynnti frumvarpið á blaðamannafundi í Borgartúni í morgun. Ljósmynd/Aðsend

„Í mínum huga er þetta gríðarlega mikilvægt frumvarp. Fyrir þessa hópa sem um ræðir hefur þetta mikla þýðingu enda búa tekjulægri hópar samfélagsins við miklu minna húsnæðisöryggi en þeir tekjuhærri.“ Þetta segir Ásmundur Einar Daðason félagsmálaráðherra í samtali við mbl.is.

Ráðherra kynnti í dag frumvarp um svokölluð hlutdeildarlán en í því felst að ríkið leggi tekjulágum einstaklingum, sem hyggja á kaup á fyrstu íbúð, allt að 20% viðbótarlán fyrir kaup á hagkvæmu nýbyggðu húsnæði. Er frumvarpinu ætlað að auðvelda leigjendum að komast inn á fasteignamarkað. Á blaðamannafundi sem haldinn var til kynningar á frumvarpinu kom fram að tekjur ungs fólks sem hlutfall af tekjum fimmtugra hefur lækkað allverulega síðustu 30 ár, og róðurinn þyngst við fasteignakaup eftir því. „Það geta ekki allir reitt sig á ódýrustu lánastofnanir í heimi, mömmu og pabba,“ sagði Ásmundur Einar á fundinum. 

Horft er til þess að 75% af láns­fjár­magni komi frá lána­stofn­un, 5% sé eigið fé kaup­and­ans, en 20% komi í formi hlut­deild­ar­láns­ins frá rík­inu. Hlutdeildarlánið ber ekki vexti og ekki eru greiddar af því afborganir. Hins vegar skal endurgreiða það við sölu eða í síðasta lagi eft­ir 25 ár. Fær ríkið þá bæði láns­fjár­hæðina sem og þá hlut­falls­legu hækk­un sem hef­ur orðið á sölu­verðmæti eign­ar­inn­ar miðað við þann hlut sem ríkið á í eign­inni.

Hefur vantað aðgerðir

Gert er ráð fyrir að framlag ríkisins vegna íbúðanna, sem verða um 400 á ári, verði 4 milljarðar á ári. „En það skiptir máli fyrir ríkissjóð til lengri tíma litið að þarna eru fjölskyldur og börn sem búa við húsnæðisóöryggi. Til lengri tíma litið er það kostnaður sem við þurfum að horfa á sem samfélag að getur orðið meiri en minni,“ segir Ásmundur. Þá óttast hann ekki að fólk lendi frekar í vandræðum þegar það þarf að stækka við sig, selur fasteignina og verður að endurgreiða lánið. „Í langflestum tilfellum er það svo að þegar þú hjálpar fólki af stað þá kemst það sjálft upp á lappirnar og plumar sig.“ 

Ásmundur segir kannanir sýna að allt að 90% fólks á leigumarkaði vilji komast í eigið húsnæði, séreignarstefna hafi verið stefna ríkisins en aðgerðir hafi skort til að koma fólki inn á markaðinn.

Hann segist ekki óttast að verið sé að hleypa fólki inn á fasteignamarkað sem ráði ekki við að taka fasteignalán. „Eitt af grundvallaratriðum fyrir því að geta farið inn í úrræðið er að fólk standist greiðslumat og hafiþví greiðslugetu til að standa undir lánunum. Það er verið að aðstoða fólk til að komast yfir þröskuldinn. Síðan fær ríkið það til baka þegar fólk flytur.“

Mikill samhljómur var í máli ræðumanna á fundinum. Ásmundur Einar, Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, og Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins tóku allir til máls og létu vel af frumvarpinu.

Ásmundur mun mæla fyrir frumvarpinu á allra næstu dögum, mögulega á morgun en aðeins eru sex fundardagar eftir af þingi og mörg mál sem bíða afgreiðslu. Spurður hve bjartsýnn hann er á að málið hljóti afgreiðslu fyrir þinglok, segist Ásmundur vonast til að málið verði unnið hratt og vel en að hann hafi að sama skapi fullkominn skilning á að þingið vilji setja sig vel ofan í málið áður en það verður afgreitt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert