Vekur hóflega bjartsýni

Íslendingar hafa verið duglegir að heimsækja Raufarhólshelli í haust.
Íslendingar hafa verið duglegir að heimsækja Raufarhólshelli í haust. The Lava Tunnel

„Við byrjuðum að opna um helgar í maí og það gekk vonum framar. Það var ótrúlega góð aðsókn um helgar og núna í júní ákveðum við að hafa opið alla daga vikunnar,“ segir Hallgrímur Kristinsson, framkvæmdastjóri Raufarhólshellis. Hann segir umferðina í hellinn dropa í hafið miðað við umferð síðasta árs, en að reksturinn í ár gangi vonum framar.

Íslendingar hafa verið duglegir að heimsækja hellinn um helgar og á virkum dögum hafa vinnu og skólahópar lagt þangað leið sína. „Maður vissi ekki við hverju átti að búast,“ segir Hallgrímur, en lokað var fyrir allar ferðir í hellinn í mars og hófust þær að nýju 8. maí.

Á síðustu árum hefur mikill meirihluti gesta verið erlendir ferðamenn, en Hallgrímur segist snortinn yfir viðtökunum frá Íslendingum. „Maður hefði haldið að útlendingar væru að koma í fyrsta skipti í helli og að Íslendingar þekktu þetta betur, en viðbrögðin eru ekki síðri hjá Íslendingum. Við erum að fá svakalega góð viðbrögð frá þeim,“ segir Hallgrímur.

Fyrirtækið hefur reynt að aðlagast breyttum aðstæðum í kjölfar kórónuveirunnar með því að bjóða upp á færri brottfarir og vera með smærri hópa í hverri brottför. Umfangsmesta aðlögunin snýr hins vegar að markaðssetningu, og leggur fyrirtækið nú meiri áherslu á íslenska heitið Raufarhólshellir í stað þess enska, sem er The Lava Tunnel.

Raufarhólshellir hefur þurft að aðlaga starfsemi sína að breyttum aðstæðum …
Raufarhólshellir hefur þurft að aðlaga starfsemi sína að breyttum aðstæðum í kjölfar kórónuveirufaraldursins. The Lava Tunnel

Hallgrímur segir umferðina upp á síðkastið vekja hóflega bjartsýni, en líkt og margir aðilar í ferðaþjónustu bíður hann spenntur eftir útgáfu ferðaávísunarinnar. „Svo er stóra spurningin hvað gerist eftir sumarið, segir Hallgrímur, en hann segir það ráðast á því hvort erlendir ferðamenn muni leggja leið sína til Íslands á ný.

„Viðskiptin upp á síðkastið gefur manni von um það að það sé hægt að brúa bilið þangað til túrisminn kemur aftur,“ bætir Hallgrímur við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert