„Láti sér ekki detta í hug að lyfta sýnatökupinna“

Hjúkrunarfræðingur á bráðamóttökunni á Landspítala í Fossvogi vonar að aðrir …
Hjúkrunarfræðingur á bráðamóttökunni á Landspítala í Fossvogi vonar að aðrir heilbrigðisstarfsmenn „láti sér ekki detta svo mikið í hug að lyfta sýnatökupinna“ á Keflavíkurflugvelli ef kemur til verkfalls hjúkrunarfræðinga 22. júní. Ljósmynd/Landspítali/Þorkell

Hjúkrunarfræðingur á bráðamóttökunni á Landspítala í Fossvogi vonar að aðrir heilbrigðisstarfsmenn „láti sér ekki detta svo mikið í hug að lyfta sýnatökupinna“ á Keflavíkurflugvelli ef kemur til verkfalls hjúkrunarfræðinga 22. júní. „Við myndum gera það sama fyrir ykkur,“ skrifar Elín Tryggvadóttir hjúkrunarfræðingur í færslu á Facebook. 

Alma Möller landlæknir sagði í samtali við RÚV í gær að hægt verði að sinna sýnatöku án hjúkrunarfræðinga. Guðbjörg Pálsdóttir, formaður Félags hjúkrunarfræðinga gagnrýndi orð landlæknis harðlega og sagði að verið sé að skapa hættulegt fordæmi, sýnataka sé „ekki eitthvað bara að setja pinna upp í nef á fólki“. 

Skimun á Keflavíkurflugvelli hefst 15. júní og fyrirhugað verkfall hjúkrunarfræðinga hefst viku síðar, náist samningar ekki fyrir þann tíma. 

„Hlaupum og hlaupum samningslaus í heimsfaraldri“

Blaðamaður mbl.is hafði samband við Elínu sem vill láta færsluna tala fyrir sig. Elín er harðorð og gagnrýnir umfjöllun síðustu daga í fjölmiðlum þar sem einblínt hefur verið á að komi til verkfalls hjúkrunarfræðinga eftir tíu daga muni það hafa áhrif á sýnatöku á landamærunum. „Því það er það versta sem gæti gerst ef hjúkrunarfræðingar fara í verkfall, að enginn taki einhver nefkoksstrok úr ferðamönnum. Minni áhyggjur virðast vera af því að þjónusta heilsugæslunnar og heimahjúkrunar verður í algjöru lágmarki. Það gleymist að enginn fer í skurðaðgerðir nema líf liggi við, enginn fær göngudeildarþjónustu og sáraskiptingar. Enginn man að sjúkrahúsin þurfa að hægja rækilega á allri starfsemi. Nei nei, það þarf ekkert að hugsa um það, ferðamennirnir eru að koma og einhver verður að taka strokin,“ skrifar Elín. 

Elín segir að nú þegar landsmenn sjá loks til sólar eftir kórónuveirufaraldurinn standi hjúkrunarfræðingar eftir í skugganum. „Við hlaupum og hlaupum samningslaus í heimsfaraldri. Við hlaupum hraðar í góðæri og við hlaupum hraðar í kreppu. Við hlaupum hraðar þrátt fyrir fjögurra ára Gerðardóm og við sem vinnum samkvæmt undanþágu munum líka hlaupa hraðar verði af verkfalli, því líf liggur jú við.“ 

Hlaupið er orðið þreytandi að sögn Elínar og segir hún hjúkrunarfræðinga ekki getað lifað á hrósi og klappi, án þess að hún vilji gera lítið úr því. Krafa hjúkrunarfræðinga er hækkun á grunnlaunum. 

„Ég vona að Alþingi sem setti lög á 13 daga verkfall hjúkrunarfræðinga árið 2015, á 100. afmælisári kosningarréttar kvenna, hugsi sig tvisvar um áður en þau endurtaka leikinn á 200 ára afmæli Florence Nightingale og árinu sem er tileinkað hjúkrunarfræðingum og ljósmæðrum. Við erum nefnilega orðin þreytt á að hlaupa fyrir fólk sem kann ekki að meta störf okkar.“



mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert