Nýr sjóður sér um endurgreiðslurnar

Ferðamálaráðherra segir unnið að því að stofna nýjan sjóð til …
Ferðamálaráðherra segir unnið að því að stofna nýjan sjóð til að endurgreiða neytendum vegna niðurfelldra ferða hjá ferðaskrifstofum. mbl.is

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir ferðamálaráðherra segir að nú sé unnið að því að koma á fót ferðaábyrgðasjóði á vegum stjórnvalda. Hann mun hafa það hlutverk að greiða neytendum sem eiga inni hjá ferðaskrifstofum vegna niðurfelldra ferða á tímabilinu 12. mars til 30. júní. Þeir hafa margir ekki fengið endurgreitt í samræmi við sinn lögbundna rétt.

Í hvert sinn sem greitt verður úr þessum sjóði myndast skuld viðkomandi ferðaskrifstofu við sjóðinn. Hún yrði greidd á allt að átta ára tímabili að sögn Þórdísar en vaxtakjörin á skuldinni væru það hagstæð að í því fælist í raun ákveðin ríkisábyrgð. Niðurgreiðslan væri ekki á markaðskjörum.

„Ef ferðaskrifstofan fer síðan í þrot á sjóðurinn forgang í tryggingarféð í samræmi við það sem greitt hefur verið út,“ segir Þórdís við mbl.is. Hún segir að ekki sé hægt að tryggja alfarið að allt það fé sem greitt verði út úr ferðaábyrgðasjóði fáist endurheimt en að ráðstafanir verði gerðar til þess að tryggja að sem mest skili sér.

Ekki hrein ríkisábyrgð

Fyrri áform ráðherra um að gera ferðaskrifstofum kleift að endurgreiða með inneignarnótum gengu ekki eftir og mættu pólitískri andstöðu. Þessi nýja leið segir hún að skapi meiri sátt og hún segist finna fyrir þverpólitískum stuðningi við hana. Ljóst er að leysa þarf þann vanda sem er kominn upp, að ferðaskrifstofur geti einfaldlega ekki endurgreitt viðskiptavinum þar sem til dæmis hótel og flugfélög eru ekki að endurgreiða þeim.

„Við erum að leita leiða til að koma súrefni inn í þetta. Stundum eru þetta fyrirtæki með allt sitt í lagi, engin vanskil og ekki neitt. Þau geta ekki endurgreitt öllum á einu bretti og komast ekki í tryggingarnar nema fara í þrot og þessi vandi fer ekki frá okkur,“ segir Þórdís.

„Nú er ekki verið að ganga á rétt neytenda með neinum hætti, ríkið tekur þetta á sig en kemur því þó þannig fyrir að við gerum ráð fyrir að skuldin sem myndist verði greidd til baka og svo gerum við ráðstafanir jafnvel þó að fyrirtækið fari í þrot. Það má því segja að þetta sé í fjölskyldu með öðrum úrræðum til fyrirtækja. Þetta er ekki hrein ríkisábyrgð. Við erum ekki að sópa upp þessar kröfur og bara að greiða þær,“ segir Þórdís.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert