Viðræðum þokað áfram á vinnufundum

Guðbjörg Pálsdóttir, formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.
Guðbjörg Pálsdóttir, formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.

„Það eru vinnufundir núna í dag hjá aðilum beggja, sem eru að vinna að öðrum málefnum sem tilheyra samningsgerð. Við erum að reyna að þoka þessu eitthvað. Það eru allir að reyna að gera sitt besta,“ segir Guðbjörg Pálsdóttir, formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga, í samtali við mbl.is.

Þung staða er í kjaraviðræðum hjúkrunarfræðinga og ríkisins og segir Guðbjörg aðspurð hvort áfram verði vinnufundir um helgina að það fari eftir því hversu vel gangi í dag.

Næsti formlegi fundur samninganefndanna hefur verið boðaður af ríkissáttasemjara á mánudag klukkan 14, en náist samningar ekki fyrir 22. júní hefjast verkfallsaðgerðir þann dag.

„Við erum alveg á fullu að undirbúa verkfallsaðgerðirnar, enda er þetta bara það stórt og mikið mál að fara í svona, að það krefst tíma og mikillar vinnu þannig að sjálfsögðu samhliða þessu verðum við að gera það og gerum það, og það er löngu hafið. Við hófum það um leið og það lá fyrir niðurstaða atkvæðagreiðslunnar.“

mbl.is