Hvað er í gangi með CrossFit?

Katrín Tanja Davíðsdóttir hefur tvívegis sigrað heimsleikana í crossfit, árið …
Katrín Tanja Davíðsdóttir hefur tvívegis sigrað heimsleikana í crossfit, árið 2015 og 2016. Nú er hún hætt í íþróttinni, að minnsta kosti þar til núverandi stjórnendur víkja. Ljósmynd/Instagram

„Þetta er nokkurn veginn stærsta yfirlýsing sem íþróttamaður getur gert,“ segir Snorri Barón Jónsson, umboðsmaður crossfit-fólksins Söru Sigmundsdóttur og Björgvins Karls Guðmundssonar, um þá ákvörðun Katrínar Tönju Davíðsdóttur að keppa ekki á heimsleikum CrossFit í ágúst ef ástandið breytist ekki á bakvið tjöldin hjá mótshöldurum.

Katrín Tanja sagði frá því í gærkvöldi að hún hygðist ekki keppa áfram undir merkjum CrossFit ef Greg Glassman, eigandi vörumerkisins, og þeir sem fylgdust aðgerðalaust með gagnrýniverðu athæfi hans í gegnum árin vikju ekki tafarlaust. Þar virðist Katrín ekki aðeins vera að vísa til rasískra ummæla Glassman heldur einnig ásakana á hendur hans um ósæmilega hegðun gagnvart kvenkyns samstarfsfólki. 

Snorri Barón og Björgvin Karl á CrossFit-leikunum 2018.
Snorri Barón og Björgvin Karl á CrossFit-leikunum 2018. Ljósmynd/Aðsend

Löngu orðið vandamál áður en Glassman skeit endanlega í buxurnar

Snorri segir að fjöldi vandamála hafi kraumað undir yfirborðinu innan íþróttarinnar um árabil, sem nú brjótist öll fram í einu. Ummæli Glassman um George Floyd hafi verið dropinn sem fyllti mælinn, en fyrir það hafi krafan um breytingar verið að verða æ háværari. Með öðrum orðum: „Þetta var löngu orðið vandamál áður en hann skeit endanlega í buxurnar,“ eins og Snorri orðar svo pent.

Greg Glassman, upphafsmaður og forstjóri CrossFit, sagðist ekki syrgja George …
Greg Glassman, upphafsmaður og forstjóri CrossFit, sagðist ekki syrgja George Floyd. Ljósmynd/Aðsend

Glassman hefur sagt af sér sem forstjóri fyrirtækisins en á það enn næstum allt sjálfur. Næstæðsti yfirmaðurinn settist í hans stað í forstjórastól, sem fólki þykir benda til þess að ekki stefni í miklar breytingar á meðan hans nýtur enn við. „Það er líka bara smám saman að koma meira og meira í ljós hvaða mann Glassman hefur að geyma, þannig að krafan núna er bara að losna við þennan gaur alfarið út úr íþróttinni,“ segir Snorri.

Setjast yfir málin eftir mót um helgina

Katrín Tanja og fleiri íþróttamenn á hennar kalíberi hafa snúist alfarið gegn Glassman og hætt keppni þar til hann víkur endanlega. Aðrir hafa fordæmt rasísk ummæli hans en ekki gengið svo langt að hafna CrossFit alfarið. Þar spilar inn í að nú um helgina stendur yfir stórmótið Rogue Invitational, þar sem keppa meðal annars fjórir Íslendingar: Katrín Tanja Davíðsdóttir, Sara Sigmundsdóttir, Þuríður Erla Helgadóttir og Björgvin Karl Guðmundsson.

Snorri, sem er umboðsmaður Söru og Björgvins, segir þau hafa ákveðið að einbeita sér að því að klára þessa keppni áður en þau settust frekar yfir það hvernig þau ætla að bregðast við stöðunni. Hann sé þó viss um að á mánudaginn kemur fari þau rækilega yfir málin, sem hefði hugsanlega verið óæskilegt að ráðast í fyrir keppni. Þar er enda verulega mikið undir, þar á meðal peningaverðlaun sem skipta sköpum fyrir íþróttamennina.

Ljósmynd/Aðsend

Framtíð vörumerkisins tvísýn

CrossFit er einkafyrirtæki og fleiri en 17.000 CrossFit-stöðvar víða um heim greiða fyrirtækinu fyrir rekstrarleyfi. Framtíð vörumerkisins er að mati Snorra tvísýn þessa stundina og hann hefur það á tilfinningunni að róttækra breytinga sé von. Hvernig málum vindur fram er óljóst en hann varpar fram tvenns konar getgátum.

Sú fyrri er að það crossfit-fólk sem hefur lýst yfir óánægju komi að samningaborðinu við stjórnendur og að í kjölfarið verði komist að niðurstöðu sem fólk geti sætt sig við. Þá þurfi að skrá í hvaða breytingar skuli ráðist og sömuleiðis skilgreina tímalínu sem þær gætu farið eftir.

Sú seinni er að eitthvað nýtt verði til. „Þessi hópur sem hefur verið að tjá sig hefur gríðarlegan kraft, þessir stjörnuíþróttamenn. Mögulega yfirgefa þau vörumerkið og stofna saman eitthvað nýtt,“ segir Snorri en ítrekar að á þessu stigi sé aðeins hægt að fara með getgátur um framtíð íþróttarinnar. Hvað sem öllu líður er ljóst að CrossFit verður ekki samt eftir þennan fasa.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert