Lýst verður eftir mönnunum þremur

Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn.
Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn. mbl.is/Kristinn Magnússon

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu reiknar með því að lýsa eftir þremur mönnum sem leitað er í tengslum við búðarþjófnað á Selfossi með ljósmyndum af þeim í von um að fá aðstoð almennings við að ná sambandi við þá.  

Þetta segir Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn. Þrír aðrir menn sem komu með þeim til landsins hafa verið handteknir af lögreglunni á Selfossi og tveir þeirra eru smitandi af kórónuveirunni.

Víðir segir mikilvægt að ná tali af mönnunum þremur og taka af þeim sýni til að athuga hvort þeir hafi einnig smitast af veirunni. „Maður gerir sér grein fyrir því að þeir séu kannski ekki spenntir fyrir því að hitta yfirvöld en það er í þeirra eigin þágu að við náum í þá,“ segir hann.

„Ef þeir eru smitaðir eins og félagar þeirra þá er hægt að veita þeim heilbrigðisþjónustu sem er nauðsynleg í þessu máli.“

Aðspurður segist Víðir hafa átt von á því að eitthvert sams konar mál myndi koma upp í tengslum við veiruna en að annars konar vandamál hefðu verið talin líklegri. „Við lítum þetta mjög alvarlegum augum.“

Sextán í sóttkví

Alls eru fjórtán lögreglumenn í sóttkví vegna málsins, auk tveggja annarra starfsmanna lögreglunnar, að sögn Víðis.

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir greindi frá því við mbl.is fyrr í kvöld að mennirnir væru rúmenskir og að hann hefði farið fram á gæsluvarðhald yfir þeim á grundvelli sóttvarnalaga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert