Mannsæmandi laun eða önnur lög á verkfall?

Verkfall hjúkrunarfræðinga hefst 22. júní nema samið verði fyrir þann …
Verkfall hjúkrunarfræðinga hefst 22. júní nema samið verði fyrir þann tíma. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fimm ár eru í dag liðin frá því lög voru sett á verkfallsaðgerðir hjúkrunarfræðinga sem þá stóðu í kjarabaráttu líkt og nú. Á þessu vekur Guðbjörg Pálsdóttir, formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga, athygli í grein sem birtist í dag. Ótímabundið verkfall hjúkrunarfræðinga hefst 22. júní, náist samningar ekki fyrir þann tíma.

„Fimm árum síðar hefur ekkert breyst hjá hjúkrunarfræðingum sem enn berjast fyrir því að fá sanngjörn laun fyrir sína vinnu, sitja fund eftir fund með samninganefnd ríkisins og í fjölmiðlum hljómar sami söngur og þá frá sumum; hvort ekki þurfi bara að setja lög á hjúkrunarfræðinga,“ segir Guðbjörg í greininni.

Gleymd sé hin gríðarlega vinna sem hjúkrunarfræðingar hafi unnið af hendi í kórónuveirufaraldrinum og þess í stað talað fjálglega um að ófaglærðir geti allt eins sinnt sýnatöku vegna ferðamanna sem hingað koma.

Guðbjörg Pálsdóttir, formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.
Guðbjörg Pálsdóttir, formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga. mbl.is/Sigurður Bogi

„Hamrað er á því að ekki sé hægt að borga hjúkrunarfræðingum mannsæmandi laun vegna Lífskjarasamninga, á sama tíma og almenningur horfir upp á þingmenn, ráðherra og æðstu embættismenn þjóðarinnar þiggja tugprósenta launahækkanir,“ segir enn fremur í greininni.

Þess er minnst í ár að 200 ár eru liðin frá fæðingu umbótakonunnar Florence Nightingale en hennar er minnst fyrir byltingarkennt framlag sitt til nútímahjúkrunar. Spyr Guðbjörg hvaða „afmælisgjöf“ hjúkrunarfræðingar muni fá af því tilefni: mannsæmandi laun eða sömu afmælisgjöf og fyrir fimm árum.

mbl.is