Endurnýja gatnamót á Hringbraut

Frá gatnamótum Hringbrautar og Hofsvallagötu.
Frá gatnamótum Hringbrautar og Hofsvallagötu. mbl.is/Árni Sæberg

Skipulags- og samgönguráð Reykjavíkurborgar samþykkti í vikunni að heimila skrifstofu samgöngustjóra að ganga að samkomulagi við Vegagerðina um breytingar a gatnamótum Hringbrautar og Hofsvallagötu. Hringbraut er stofnvegur og því í umsjá Vegagerðarinnar en náðst hefur samkomulag milli aðilanna um framkvæmdirnar.

Yfirborð gatnamótanna verður endurnýjað og gönguleiðir sem þvera Hringbraut og Hofsvallagötu merktar með áberandi hætti. Afmörkun verður fyrir hjólandi vegfarendur í Hofsvallagötu næst gatnamótunum, beggja vegna Hringbrautar. Þá verða bílastæði næst gatnamótunum fjarlægð bæði til að gefa gangandi meira rými og til að lengja vinstribeygjuvasa fyrir umferð sem ekur vestur Hringbraut og tekur vinstribeygju suður Hofsvallagötu.

Allur umferðarljósabúnaður verður endurnýjaður og tengdur miðlægri stýritölvu umferðarljósa. Þá verður kassa fyrir hraðamyndavél komið fyrir við gatnamótin og götulýsing endurbætt til að auka sýnileika og öryggi vegfarenda.

Verkefnið er hluti af víðtækari framkvæmdum á Hringbraut um Vesturbæ en hámarkshraði um götuna var lækkaður úr 50 km/klst. niður í 40 km/klst. í fyrra í kjölfar þess að keyrt var á 13 ára stúlku á götunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert