Styttist í upplýsingar um skólavist

Mynd úr safni.
Mynd úr safni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Nýnemar í framhaldsskóla þurfa að bíða til 22. júní eða síðar eftir upplýsingum um hvaða skóla þeir stunda næsta vetur. Þessa dagana sitja skólastjórnendur við að fara yfir umsóknir. Þeir kannast ekki við að einkunnagjöf sé ólík eftir grunnskólum en dæmi eru um ólíka einkunnagjöf milli kennara og eins að sérstakar upplýsingar fylgi umsóknum.  

Verzlunarskólinn getur aðeins tekið inn um helming þeirra nemenda sem …
Verzlunarskólinn getur aðeins tekið inn um helming þeirra nemenda sem sækja um skólavist þar í ár. mbl.is/Árni Sæberg

Ingi Ólafsson, skólastjóri Verzlunarskóla Íslands, segir að ekki sé mikill munur á skólum þegar kemur að einkunnagjöf en honum sýnist sem munur sé á milli kennara þegar kemur að einkunnagjöf. Hann tekur sem dæmi grunnskóla þar sem margir tíundubekkingar sækja um skólavist í Verzlunarskólanum. Áberandi hafi verið hversu fáir hafi komist inn í Verzlunarskólann úr þessum skóla og kom þá í ljós að nánast enginn nemandi úr þessum skóla sem sótti um var með hærra en B í lykilgrein þegar kemur að umsókn. Þetta fer eftir kennurum frekar en skólum segir Ingi í samtali við mbl.is þegar blaðamaður leitaði til hans um hvort það væri rétt að ólík hæfni lægi á bak við bókstafseinkunn, það er að A úr einum skóla sé alls ekki sama og A úr öðrum skóla. 

Að sögn Inga gáfu margir grunnskólar það út þegar þessu einkunnakerfi var komið á að þeir ætluðu að gefa áfram einkunnir í tölum og varpa þeim í bókstafi. Að sögn Inga er það ekki rétt aðferð og bendir á að það eigi að miða við hæfni og færni nemanda þegar hann lýkur grunnskóla. Ekki refsa nemanda fyrir fyrri stöðu. Margir taki sig á þegar líður á grunnskólanámið og það beri að virða.

Að sögn Inga eru mjög margar umsóknir um skólavist í Verslunarskólanum í ár líkt og undanfarin ár en þær eru um 700 talsins á meðan skólinn getur ekki tekið við nema um 350 nýnemum í ár. 

Framhaldsskólar hafa heimild til að gera sérstakar kröfur um undirbúning og námsárangur vegna innritunar á einstakar námsbrautir framhaldsskóla og er misjafnt hvaða kröfur eru gerðar. 

Við mat hjá Verzlunarskólanum hafa einkunnir í íslensku og stærðfræði tvöfalt vægi og síðan eru valdar tvær hæstu einkunnir úr náttúrufræði, samfélagsfræði, ensku og dönsku. Það er tvær hæstu einkunnir nemandans í þessum fjórum greinum.

Spurður um einkunnir í samræmdum prófum í níunda bekk segir Ingi að þær skipti ekki máli enda fylgi þær ekki með umsókn um skólavist. 

Upplýsingar um innritun hjá Verzlunarskóla Íslands

Kvennaskólinn í Reykjavík

Oddný Hafberg, aðstoðarskólameistari Kvennaskólans í Reykjavík, segir að þau hafi ekki orðið vör við mun á milli grunnskóla þegar kemur að einkunnagjöf í lok tíunda bekkjar. 

Hún segir að það sé ekki mögulegt fyrir skólann að rannsaka hvort svo sé en ekkert hafi hingað til komið fram sem bendi til þess. „Það væri hins vegar alveg þess virði að fræðileg og mjög skipulögð rannsókn færi fram á því hvort þetta sé rétt,“ segir Oddný og bendir á líkt og fleiri hafa gert — hvort hægt sé að keyra saman einkunnir í samræmdum prófum í níunda bekk og einkunnir við lok grunnskóla. Ekki fengust svör við því hjá Menntamálastofnun hvort slíkt væri til athugunar þegar blaðamaður leitaði eftir upplýsingum hjá stofnuninni fyrir helgi. 

Oddný segir að ekkert hafi komið fram nú né áður í umsóknum nemenda sem stingi í augun hvað varðar einkunnagjöf. Enda sé mjög skýrt hæfismat á bak við hverja einkunn nemenda í grunnskóla og engin ástæða til að ætla annað en að kennarar séu að sinna starfi sínu eins og þeim sé ætlað segir hún. 

Hún bendir á að ekkert samræmi sé á milli einkunnagjafar í framhaldsskólum og mjög hæpið að það sé nákvæmlega eins hjá öllum framhaldsskólum á meðan allir eru að gera sitt besta. 

Oddný segir að svipaður fjöldi umsókna um skólavist hafi borist í ár og undanfarin ár. Vinna þurfi úr bæði umsóknum þeirra sem setja Kvennaskólann í fyrsta val sem og annað val. Alls eru þetta tæplega 600 umsóknir en af þeim eru rúmlega 230 þar sem Kvennaskólinn er í fyrsta sæti. Í ár verða teknir inn um 220 nýnemar í Kvennaskólann sem er svipaður fjöldi og í fyrra.

Verklagsreglur við inntöku nýnema við Kvennaskólann í Reykjavík

Menntaskólinn við Sund.
Menntaskólinn við Sund. mbl.is/Árni Sæberg

Már Vilhjálmsson, rektor Menntaskólans við Sund, segir að starfsmenn MS hafi ekki orðið varir við ólíka einkunnagjöf á milli grunnskóla. „Ég hef ekki hugmynd um hvort svo sé en hef ekki orðið var við það,“ segir Már. 

Hann segir aðsóknina mikla í ár, um 600 umsóknir og er þar bæði um fyrsta og annað val umsækjenda um skólavist í MS að ræða.

Már segir að við yfirferð umsókna nú virðist sem meira sé um óvissueinkunnir hjá sumum nemendum og sá hópur sem er með athugasemdir við einkunnagjöf úr grunnskóla sé stærri í ár en áður. „Sumar skýringar séu sérstakar, svo sem að þessi nemandi sé betri en einkunnir segja til um. Við getum náttúrulega ekki gert annað en að vinna með einkunnir,“ segir Már og veltir fyrir sér hvort þar geti verið um áhrif frá kórónuveirufaraldrinum að ræða. 

Að sögn Más auglýsti skólinn innritun eldri nemenda í vor og fékk þannig 50-60 umsóknir á annað og þriðja ár en ekki hafi reynst unnt að taka inn nema örfáa úr þeim hópi. 

Almennt skilyrði þess að hefja nám til stúdentsprófs í Menntaskólanum við Sund á öðru hæfnistigi í lykilgreinum haustið 2020 er að hafa hlotið einkunnina B, B+ eða A í ensku, íslensku, stærðfræði og dönsku við lok grunnskóla. Við úrvinnslu umsókna eru þær metnar með tilliti til námsárangurs í íslensku, ensku, stærðfræði, dönsku, náttúrufræði og samfélagsfræði.

Hann segir að í fyrstu umferð sé nemendum raðað eftir einkunnum, ekki hvort um fyrsta eða annað val sé að ræða, og þar er ansi stór hópur sem er ekki með grunn inn í námið. Það er ná ekki B í einkunn í stærðfræði, íslensku og ensku sem er inntökuskilyrði á stúdentsprófsbrautir. „Hópurinn sem sækir um hjá okkur er sterkur hópur en samt sem áður margir að sækja um hjá okkur í þeirri von að það verði eitthvert sérstakt tillit vegna COVID-19. Eitthvað sem góð námsráðgjöf á fyrri árum hefði beint viðkomandi nemendum á nám við hæfi,“ segir Már en  stefnt er að því að taka inn 240 nemendur á fyrsta ár í haust. 

Upplýsingar um inntökuskilyrði hjá Menntaskólanum við Sund

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert