500 mega koma saman frá deginum í dag

500 manns mega koma saman frá og með deginum í …
500 manns mega koma saman frá og með deginum í dag en voru áður 200. Næsta aflétting á samkomubanni verður að öllu óbreyttu 5. júlí. mbl.is/Sigurður Unnar Ragnarsson

Frá og með deginum í dag mega 500 manns koma saman miðað við gildandi samkomubann og gildir sá hámarksfjöldi til 5. júlí að óbreyttu. Áður máttu 200 manns koma saman. Þrír mánuðir eru síðan fyrsta samkomubannið vegna útbreiðslu kórónuveirunnar tók gildi. 

Þá geta sundlaugar og líkamsræktarstöðvar haft opið án fjöldatakmarkana. Á sundstöðum teljast börn fædd 2015 og síðar ekki með gestafjölda. 

Veitingastaðir, skemmtistaðir, barir og spilasalir búa áfram við takmarkanir þar sem heimilt er að hafa opið til klukkan 23. Spilakassa má nota ef sótthreinsað er milli notenda og tveggja metra reglu milli einstaklinga er fylgt eins og kostur er. 

Heilt yfir verða áfram gerðar sömu kröfur og áður um sótthreinsun og þrif almenningsrýma. Tveggja metra reglan er valkvæð en með henni er horft til þess að vernda þá sem eru viðkvæmir með því að skapa þeim sem það kjósa aðstæður til að viðhalda tveggja metra fjarlægðarreglu. Þannig verði til dæmis á veitingastöðum, í leikhúsum og bíósölum boðið upp á að minnsta kosti nokkur sæti sem geri þetta kleift.

Hér má finna nánari upplýsingar um gildandi takmarkanir á samkomum vegna kórónuveirunnar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert