Fann þá skrapa innan úr hnakkanum

„Ég vissi nú ekki alveg að nefið næði svona langt inn í haus. Maður fann það alveg að það var skrapað eitthvað innan úr hnakkanum,“ segir Iðunn Ólafsdóttir. Hún er ein þeirra tvö hundruð farþega sem lentu á Keflavíkurflugvelli með fyrstu vél í morgun en vélin kom frá London.

Skimun fyrir kórónuveirunni meðal ferðmanna hófst á vellinum í dag en nýjar reglur um komur ferðamanna til landsins hafa tekið gildi og þurfa þeir nú ekki að fara í tveggja vikna sóttkví við komuna til landsins ef þeir undirgangast skimun á vellinum. Von er að þetta glæði ferðaþjónustuna lífi, sem hefur verið í lamasessi frá því kórónuveiran fór að láta á sér kræla í lok febrúar.

Fyrsta vél til landsins kom frá London, en það var flug Wizz Air og lenti vélin klukkan 9:35 með 100 farþega innanborðs. Um klukkustund síðar kom sú næsta, vél SAS frá Kaupmannahöfn en það var fyrsta farþegavélin sem kemur frá Kaupmannahöfn síðan í mars enda lokuðu Danir landamærum sínum algerlega í þeim mánuði. Átta vélar eru á áætlun í dag, frá Ósló, London, Færeyjum, Frankfurt, Stokkhólmi og þrjár frá Kaupmannahöfn. Þá eru átta brottfarir fyrirhugaðar til sömu áfangastaða.

Jórlaug Heimisdóttir, verkefnastjóri skimunar á Keflavíkurflugvelli, segir að skimunin hafi gengið vel fyrir sig fyrstu tímana. „Farþegarnir voru ótrúlega skilningsríkir og flottir og bjuggust greinilega við þessu,“ segir hún.

Fyrstu farþegarnir koma inn í móttökusalinn á Kefklavíkurflugvelli.
Fyrstu farþegarnir koma inn í móttökusalinn á Kefklavíkurflugvelli. mbl.is/Kristinn Magnússon
Tíu sýnatökubásar bíða ferðamanna. Skimun tekur um 2-3 mínútur og …
Tíu sýnatökubásar bíða ferðamanna. Skimun tekur um 2-3 mínútur og er gert ráð fyrir að um 40 mínútur taki að afgreiða fulla vél af fólki. Börn undir 15 ára aldri þurfa ekki að fara í sýnatöku. mbl.is/Íris Jóhannsdóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert