Vænta niðurstöðu úr sýnatöku síðdegis

Rúmenarnir eru nú í einangrun og sóttkví í sóttvarnahúsinu við …
Rúmenarnir eru nú í einangrun og sóttkví í sóttvarnahúsinu við Rauðarárstíg. mbl.is/Sigurður Ragnarsson

Sýni hafa verið tekin úr Rúmenunum sem rufu sóttkví með því að mæta á lögreglustöð til þess að láta vita um breyttan dvalarstað í nótt. Von er á niðurstöðum síðdegis í dag.

Þetta staðfestir Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, í samtali við mbl.is, en talið er en fimmmenningarnir hafi verið í samskiptum við annan þeirra Rúmena sem reyndust smitaðir í kjölfar þess að þeir voru handteknir ásamt fleirum vegna þjófnaðar og í ljós kom að þeir voru að rjúfa sóttkví.

Hið minnsta 14 lögregluþjónar hafa verið skikkaðir í sóttkví vegna samskipta við annan hópinn, en að sögn Víðis vinnur smitrakningarteymið að því að rekja ferðir beggja hópa og hefur enginn til viðbótar verið sendur í sóttkví enn sem komið er.

Víðir segir það í verkahring lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu að beita sektum í málinu og segir að það hljóti að koma til greina þar sem um sé að ræða skýrt brot.

Ekki náðist í rannsóknardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, sem hefur til rannsóknar hvort hóparnir tengist skipulagðri glæpastarfsemi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert