Hinir smituðu komu frá Lundúnum og Amsterdam

Alls hafa fjórir greinst með kórónuveirusmit eftir að skimun hófst …
Alls hafa fjórir greinst með kórónuveirusmit eftir að skimun hófst á Keflavíkurflugvelli 15. júní. Tveir voru að koma frá Kaupmannahöfn, einn frá London og einn frá Amsterdam. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Íslendingur sem var að koma frá Lundúnum og erlendur ferðamaður sem kom með flugi frá Amsterdam greindust með kórónuveiruna við komuna til Keflavíkur í gær. Þetta staðfestir Kjartan Hreinn Njálsson, aðstoðarmaður landlæknis, í samtali við mbl.is. 

Í öðru til­fell­inu er lík­lega um gamla sýk­ingu að ræða. Báðir farþegarnir fóru í mótefnamælingu en niðurstöður úr henni liggja ekki fyrir. Frá því að skimun á landa­mær­um hófst 15. júní hafa fjög­ur sýni reynst já­kvæð fyr­ir COVID-19, og líklega eru tveir af þeim með virk smit.

Rútína komin á skimunarferlið 

Um 500 farþegar komu með flugi til landsins um miðjan dag í dag og von eru á um 170 farþegum í kvöld. Alls er von á 762 farþegum til landsins í dag. 

Jórlaug Heimisdóttir, verkefnastjóri skimunar á Keflavíkurflugvelli, segir í samtali við mbl.is að skimunin gangi vel fyrir sig og að ákveðin rútína sé komin á skimunarferlið. Jórlaug segir að það sem helst mætti beina til farþega er að bíða þolinmóðir eftir niðurstöðu úr sýnatöku og halda sig sem mest út af fyrir sig þangað til niðurstaða liggur fyrir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert