Í dag eru tuttugu ár liðin síðan Suðurlandsskjálftinn varð árið 2000. Mikið eignatjón varð vegna skjálftans en ekkert manntjón. Jarðskjálftafræðingurinn Ragnar Stefánsson var á þeim tíma forstöðumaður jarðeðlissviðs Veðurstofu Íslands og eru atburðir júnímánaðar um aldamót honum ferskir í minni.
Ragnar var í fríi norður í Svarfaðardal þegar skjálftinn brast á.
„Ég var staddur í safnaðarheimilinu á Dalvík og var að drekka kaffi þegar einhver kom til mín og sagði að það hefði orðið mikill skjálfti á Suðurlandi. Ég bjó mig til farar suður strax í framhaldi af því.“
Í kjölfarið fóru Ragnar og fleiri frá Veðurstofunni í að meta hversu stór skjálftinn hafi verið.
„Það kom mjög fljótt í ljós að þetta var jarðskjálfti af stærðinni 6,6 eins og við mátum hann þá. Hann var þá nokkuð stór Suðurlandsskjálfti. Við höfum kallað svona skjálfta Suðurlandsskjálfta þegar þeir hafa verið á milli sex og sjö að stærð en það eru stórir skjálftar og mjög stórir á íslenskan mælikvarða.“
Ragnar segir að hátíðarhöld 17. júní hafi verið lán í óláni þennan dag.
„Það urðu engin slys á fólki sem heitið gæti. Það var heppni að flest fólk var úti við vegna hátíðarhalda 17. júní. Þannig að að því leyti fór þetta mjög vel en það varð víða mikið rask í jörðu og það varð heilmikið efnahagslegt tjón af þessum skjálfta.“
Eftir skjálftann 17. júní fór starfsfólk jarðeðlissviðsins í að kanna hvort annar skjálfti væri á leiðinni.
„Það er þekkt að það koma fleiri skjálftar til vesturs frá þessu svæði þegar skjálftar verða austan til eða um miðbik svæðisins. Það var til dæmis það sem gerðist árið 1896. Því fórum við að kanna hvort við gætum áttað okkur á því hvar næsti skjálfti myndi verða. Okkur tókst það að kvöldi 19. júní. Þá sendum við skeyti til almannavarnanefndar og sveitarstjórna á Árborgarsvæðinu um það að við reiknuðum með því að það yrði skjálfti þarna nálægt Hestfjalli mjög bráðlega og af svipaðri stærð. Við sendum líka skeyti til þessara aðila um líklegt skemmdasvæði.“
Úr því rættist 26 klukkustundum seinna, rétt eftir miðnætti aðfararnótt 21. júní með Suðurlandsskjálftanum, að stærð 6.6, við Hestvatn.
„Við höfðum þá spáð mjög rétt fyrir bæði um það hvar skjálftinn yrði og hvað hann yrði stór. Það sem var líka gagnlegt var að almannavarnir á svæðinu fóru að undirbúa sig undir að þetta myndi gerast. Við vildum ekki gera þetta opinbert þar sem við vorum ekki nógu öruggir með þetta en þetta væri nógu öruggt til að menn færu að undirbúa sig undir að þetta myndi gerast.“
Spurður hvort það hafi ekki skipt sköpum að spáð hefði verið fyrir skjálftanum sem skók Suðurlandið 21. júní segir Ragnar að það hafi verið mjög gagnlegt en erfitt sé að segja hvað hefði gerst ef honum hefði ekki verið spáð fyrir fram.
„Þeir sem fengu þessi boð austur í Árborg voru mjög ánægðir með þetta og þetta gerði þeim mikið gagn. Vísindunum gerði þetta líka gagn því mönnum tókst aðeins að vísa á bug þeirri bábilju að það væri ekki hægt að spá fyrir um jarðskjálfta.“
Báðum skjálftunum höfðu Ragnar og fleiri spáð í tveimur tímaritsgreinum tíu árum áður.
„Það voru engar ráðstafanir gerðar vegna spánna nema þær að við einbeittum okkur meira að því að rannsaka þetta svæði og ein af ástæðunum fyrir því að við gátum varað við seinni skjálftanum eins vel og við gerðum var að árið 1988 hófst rannsóknarverkefni Norðurlandanna um jarðskjálftaspá á Suðurlandi.
Fyrsta verkefnið var að setja upp þetta smáskjálftamælakerfi sem er kallað SIL. Þetta er nú aðalkerfið á Íslandi þegar fylgst er með jörðinni. Síðan ýtti þessi spá undir það að við fengum rannsóknarstyrk áfram svo þetta var heildarverkefni sem stóð til 2005 eða 2006.“
Sú vinna sem verkefnið skildi eftir sig hefur nýst vel á síðari árum, sérstaklega hvað varðar SIL-mælakerfið, að sögn Ragnars.
„En að mínu viti hefði mátt gera miklu betur í að nýta niðurstöður þessara rannsókna til að byggja upp stöðuga viðvörunarþjónustu um jarðskjálfta, byggja vel þróað viðvörunarkerfi sem ynni sjálfvirkt á svipstundu úr mælingunum framreiddi þær fyrir vísindamennina til að eiga meiri möguleika á að geta komið með góðar viðvaranir.“
Aðspurður segir Ragnar að hann voni að Íslendingar hafi nú þekkingu í höndunum til að takast enn betur á við skjálfta af þessari stærðargráðu en áður, sérstaklega þar sem nú sé auðveldara að spá fyrir um þá en áður var.