Tveir sækjast eftir formennsku SÁÁ

Einar Hermannsson og Þórarinn Tyrfingsson sækjast báðir eftir embætti formanns …
Einar Hermannsson og Þórarinn Tyrfingsson sækjast báðir eftir embætti formanns SÁÁ. Samsett mynd

Einar Hermannsson, stjórnarmaður í SÁÁ, og Þórarinn Tyrfingsson, sem lét af formennsku samtakanna árið 2017, hafa báðir tilkynnt um framboð til formanns SÁÁ. Formaður og ný 48 manna stjórn félagsins verður kjörin á aðalfundi 30. júní næstkomandi.  

Arnþór Jónsson, sitjandi formaður samtakanna, tilkynnti stjórnarmönnum í gærmorgun að hann hygðist ekki sækjast eftir endurkjöri. 

Deilur hafa ríkt innan SÁÁ á milli starfsmanna sjúkrahússins Vogs og forystu stjórnar SÁÁ. Valgerður Á. Rúnarsdóttir, yfirlæknir á Vogi, styður framboð Einars Hermannssonar, sem hefur setið í stjórn SÁÁ í 4 ár.

„Ég er með flestallt starfsfólkið á bakvið mig, sem vill þessar breytingar og ég er með öflugan hóp innan grasrótarinnar og ég tel mig hafa stuðning helmings stjórnarmanna,“ segir Einar. 

Þá vill Einar koma á fagstjórn yfir sjúkrahúsinu Vogi og að eignarhald SÁÁ í Íslandsspilum sé endurskoðað.

„Það þarf að vera gagnkvæm virðing milli starfsfólksins og stjórnar og síðan þarf að efla grasrótina. Formaðurinn hefur að hluta til misskilið hlutverkið sitt og verið að einblína á Sjúkrahússreksturinn og átt of mikil afskipti þar,“ sagði Einar. 

Ekki náðist í Þórarin Tyrfingsson við vinnslu fréttarinnar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert