Mun ekki styðja nýjan formann

Brynjar Níelsson.
Brynjar Níelsson. mbl.is/Árni Sæberg

„Ég treysti henni ekki fyrir formennsku í nefndinni allt frá því að hún var kosin. Frá þeim tíma hefur vantraustið bara aukist,“ segir Brynjar Níelsson, nefndarmaður í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd og þingmaður Sjálfstæðisflokks.

Vísar hann til afsagnar Þórhildar Sunnu Ævarsdóttur, þingmanns Pírata, úr embætti formanns nefndarinnar. Ástæðu afsagnarinnar sagði Þórhildur vera linnulausar árásir og valdníðslu meirihluta nefndarinnar.

Að sögn Brynjars á afsögnin sér eðlilegar skýringar. Í sporum Þórhildar hefði hann sjálfur farið sömu leið. „Hún hafði takmarkað traust og nú þegar höfðu þrír lýst því yfir að þeir treystu henni ekki. Sjálfur hefði ég farið sömu leið í hennar stöðu. Þegar fólk nýtur ekki trausts er rökrétt að segja af sér,“ segir Brynjar og bætir við að mikilvægt sé að formaður framangreindrar nefndar njóti trausts nefndarmanna.

„Þegar fólk er hér í pólitískri baráttu til að koma höggi á pólitíska andstæðinga er nefndin lítils virði í mínum huga. Mér finnst mikilvægt að fólk njóti trausts og þar skiptir engu hvort viðkomandi kemur úr meirihlutanum eða stjórnarandstöðunni.“

Nú á mánudag greindi Jón Þór Ólafsson frá því að hann gerði ráð fyrir að taka við formennsku af Þórhildi. „Samkvæmt samningum sem gerðir voru í upphafi þings fer þingflokkur Pírata með formennsku,“ sagði Jón Þór.

Aðspurður segir Brynjar að hann muni ekki styðja Jón Þór til formennsku. „Hugmyndir þeirra eru með þeim hætti að þau eru ekki réttu aðilarnir til að leiða þetta starf. Ég mun ekki styðja hann til formennsku,“ segir Brynjar.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert