20 þúsund kosið utan kjörfundar

Á höfuðborgarsvæðinu hafa 15.308 kosið utan kjörfundar.
Á höfuðborgarsvæðinu hafa 15.308 kosið utan kjörfundar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Talsvert fleiri hafa kosið utan kjörfundar í forsetakosningum en gengur og gerist, en atkvæði eru orðin 20.001 talsins fyrir landið allt.

Þar af eru 699 aðsend atkvæði, að sögn Bergþóru Sigmundsdóttur, sviðsstjóra hjá sýslu­mann­in­um á höfuðborg­ar­svæðinu. „Í gær var stærsti dagurinn, þá voru það 1.738 atkvæði,“ segir Bergþóra í samtali við mbl.is.

„Í gær var stærsti dagurinn, þá voru það 1.738 atkvæði,“ …
„Í gær var stærsti dagurinn, þá voru það 1.738 atkvæði,“ segir Bergþóra í samtali við mbl.is. mbl.is/Auðun

Á höfuðborgarsvæðinu hafa 15.308 kosið utan kjörfundar, en til samanburðar við forsetakosningarnar 2016, sem voru þær fjölmennustu til þessa, höfðu um 9.000 kosið á sama tíma.

„Hvort þetta er vegna þess að fólk er að koma jafnar, eða hvort það sé meiri þátttaka í utankjörfundaratkvæðagreiðslu eða í kosningunum get ég ekki sagt til um í sjálfu sér. Það getum við bara séð eftir á.“

Hægt er að kjósa utan kjörfundar á tveimur stöðum í Smáralind: á 1. hæð nálægt innangi í norðausturhluta og miðsvæðis á 2. hæð, nálægt þjónustuborðinu. Þá er hægt að greiða atkvæði í húsnæði KSÍ undir stúkunni á Laugardalsvelli.

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, og Guðmundur Franklín Jónsson, sem …
Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, og Guðmundur Franklín Jónsson, sem býður sig fram gegn Guðna. Samsett mynd
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert