Bíða í óvissu í sóttvarnahúsinu

Mál hóps Rúmena er í vinnslu hjá Útlendingastofnun, sem þegar …
Mál hóps Rúmena er í vinnslu hjá Útlendingastofnun, sem þegar hefur úrskurðað um að senda skuli tvo þeirra úr landi. mbl.is/Sigurður Ragnarsson

Ellefu Rúmenar eru staddir í einangrun og sóttkví í sóttvarnahúsinu á Rauðarárstíg í miðbæ Reykjavíkur. Þar bíða þeir úrskurðar Útlendingastofnunar um hvort þeim sé vært áfram í landinu eða ekki. Tveir þeirra hafa reyndar meiri vissu en hinir, en þeim hefur þegar verið birtur úrskurður Útlendingastofnunar um að þeir skuli yfirgefa landið. 

Mál fleiri einstaklinga í hópnum eru til skoðunar hjá Útlendingastofnun og þeim kann að fjölga í framhaldinu, samkvæmt upplýsingum frá stofnuninni. Þess er að geta að þeim sem þegar hefur verið vísað úr landi eru ekki þeir sem urðu uppvísir að þjófnaði á Selfossi og reyndust smitaðir af veirunni. Mál þeirra er hjá Lögreglunni á Suðurlandi.

Heimilt að senda úr landi vegna almannaöryggis

Samkvæmt upplýsingum frá stofnuninni úrskurðar hún um frávísun í þessum málum með hliðsjón af gögnum frá lögreglu og á grundvelli útlendingalaga, sem gera ráð fyrir að heimilt sé að vísa EES- eða EFTA-borgara og aðstandanda hans frá landi við komu til landsins eða allt að sjö sólarhringum eftir komu „ef það er nauðsynlegt vegna allsherjarreglu, almannaöryggis eða almannaheilbrigðis.“

Það liggur fyrir að flestir ef ekki allir í hópnum brutu reglur um sóttkví vegna kórónuveirufaraldurs og fólk í tengdum hópi greindist með veiruna utan sóttkvíar. 

Allir brutu Rúmenarnir sóttvarnalög með því að dvelja ekki á …
Allir brutu Rúmenarnir sóttvarnalög með því að dvelja ekki á skráðum sóttkvíarstað. mbl.is/Sigurður Ragnarsson

Þeir tveir sem ákveðið hefur verið að vísa úr landi verða sendir úr landi með atbeina lögreglu fljótlega. Hinir níu bíða af sér sóttkvína á meðan Útlendingastofnun athugar stöðu þeirra og stofnunin vinnur málin í þeirri röð sem þau berast henni.

Ekki í haldi að sögn lögreglu

Að sögn Ásgeirs Þórs Ásgeirssonar yfirlögregluþjóns eru Rúmenarnir ekki í haldi lögreglu, heldur dvelja þeir einfaldlega í húsinu í sóttkví eins og þeirra er réttur. Þar gilda þá hefðbundnar reglur um sóttkví, sem gera ráð fyrir samskiptalausum gönguferðum og öðru eins.

Vissulega er það þó svo að hefðu Rúmenarnir hug á því að yfirgefa sóttvarnahúsið væri sú ákvörðun um leið orðin lögbrot í skilningi sóttvarnalaga, nefnilega af sama toga og þau brot sem einstaklingarnir hafa þegar verið sektaðir fyrir. Ásgeir segir að þeim sé frjálst að sækja um að breyta sóttkvíarstað og að það yrði þá tekið til skoðunar. Fólkið rataði allt til lögreglu í vikunni eftir að lýst var eftir því. Það hafði komið til Íslands en ekki haldið til dvalar á skráðum sóttkvíarstað.

mbl.is